154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

224. mál
[17:12]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í greinargerð með frumvarpinu sem hér er til umræðu kemur fram að það feli í sér innleiðingu tiltekinnar ESB-reglugerðar. Þar kemur ítrekað fram að með því sé verið að lögfesta Evrópureglugerðina, sérstaklega skyldurnar varðandi upplýsingagjöf. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Miðlæga upplýsingakerfið þarf að vakta birgðastöðu lyfja og nauðsynlegra lækningatækja í rauntíma svo að hægt verði að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Evrópureglugerðinni.“

Þetta er beinlínis rangt. Ég má til með að spyrja hæstv. ráðherra af hverju íslenska ríkið telur sig þurfa að ganga lengra við innleiðingu þessara reglna en forsjárhyggjusambandið í Brussel og hvort hæstv. ráðherra telji að frumvarp hans uppfylli skilyrði þingsins um meðferð EES-mála. Þar vísa ég til þess að það skuli sérstaklega tilgreint þegar gengið er lengra við innleiðingu — þegar frumvarp er gullhúðað — og skal rökstuðningur fylgja slíkri ákvörðun.