154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

224. mál
[17:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég hef móttekið þetta bréf og ég held að það sé mjög brýnt að við förum alltaf mjög nákvæmlega yfir það hér þegar við erum með Evrópureglur og og -tilskipanir sem við ætlum að fara með hér í gegnum þingið, að við séum að gera það eftir bókinni, skulum við segja, og séum ekki að bæta of miklu þar við, ekki alla vega að ástæðulausu. Hér erum við með mál sem snúast raunverulega um sama hlutinn, þ.e. hvernig við aukum öryggi. Ég reyndi að koma því skýrt á framfæri í fyrra andsvari að það sem skilur á milli, þegar við tökum bæði tilskipunina og svo þessa skýrslu forsætisráðherra, er að þegar um er að ræða einhvern atburð eða bráða ógn sem steðjar að þá skipta rauntímaupplýsingar máli. Við erum nýbúin að fara í gegnum faraldur og þá skiptir Evrópusamvinna máli, m.a. um það hvaða tæki og hvaða lyf það eru sem munu skipta máli. Það er erfitt að sjá það fyrir. Þess vegna er talið skynsamlegt að hafa þar allt undir í rauntíma. Það kann vel að vera að okkur greini þar á og höfum ólíkar skoðanir um það en það er munurinn sem við erum raunverulega að tala um hér. Mér finnst ekki óeðlilegt að fjallað sé um það í nefnd og við höfum skoðanir á því. En hér er bara verið að bregðast við. Við erum að innleiða tilskipun í tíma til þess m.a. að grípa það sem fram kemur í skýrslu forsætisráðherra, um það fjallar þetta mál sem og öryggi þegnanna. Það er það sem skilur á milli þegar við erum að tala um gullhúðun, að það sé allt undir eða bara eitthvað tiltekið sem við sjáum ekki fyrir.