154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

225. mál
[18:00]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég fagna þessu máli og styð það í efni sínu. Mér sýnist hins vegar því miður á þessu máli, eins og er reyndar svolítið tilhneigingin hjá þessari ríkisstjórn — það er að ganga svolítið hálfa leið þegar verið er að fara í úrbætur af þessu tagi. Mig langar að lesa hérna örstutt upp úr umsögn sem barst um málið á síðasta þingi frá Heilsuhag, sem eru hagsmunasamtök notenda heilbrigðisþjónustu, með leyfi forseta:

„Heilsuhagur fagnar því að stuðst hafi verið við norska fyrirmynd, Statens helsesyn, en vill jafnframt benda á það að í Noregi þá eru fylkislæknar sem fara með rannsókn mála algjörlega óháðir aðilar og mega ekki vera í neinum tengslum við málsaðila. Í Noregi er einnig öflugur umboðsmaður sjúklinga, sem aðstoðar sjúklinga og aðstandendur þegar upp koma atvik í heilbrigðiskerfinu.“

Spurningin sem mig langar að beina til hæstv. ráðherra er kannski fyrst og fremst sú hvers vegna ekki voru stigin skref samhliða þessu til að efla stöðu sjúklinga og notenda heilbrigðisþjónustu gagnvart heilbrigðiskerfinu, svo sem með því að setja á fót embætti umboðsmanns sjúklinga.