154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

225. mál
[18:34]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég tel mér rétt og skylt að koma hér upp, ekki til að halda mjög langa ræðu en þó. Ég ætla að byrja á því að fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að leggja þetta frumvarp fram að nýju. Ég mun reyna að leggjast á árarnar með honum til að tryggja að þetta frumvarp nái fram að ganga. Það verða þó að verða á því ákveðnar breytingar. Ég vil taka það fram hér af því að í greinargerð með frumvarpinu er vitnað til þess að hv. velferðarnefnd hafi haft málið til umfjöllunar síðastliðið vor. Þar segir að nefndin hafi lokið umfjöllun sinni með nefndaráliti og það er tekið tillit til breytingartillögu sem fylgdi því nefndaráliti í þessu frumvarpi. Nú var ég einn þeirra sem skrifuðu undir þetta nefndarálit og ég er mjög hugsi. Ég er mjög hugsi yfir því að hafa skrifað undir nefndarálitið en það gerði ég í þeirri fullvissu að frumvarpið yrði ekki afgreitt á liðnu vori. Því taldi ég rétt að standa með mínum félögum í meiri hluta velferðarnefndar og skrifaði undir nefndarálitið. Það er hægt að gagnrýna mig fyrir það og ég hallast satt að segja að því að það hafi verið mistök af minni hálfu að gera hlutina með þeim hætti. Ég hefði a.m.k. átt að skrifa inn í nefndarálitið efnislegan fyrirvara sem mér láðist og hef ég því miður ekki við neinn annan að skammast en sjálfan mig, aldrei þessu vant, hæstv. ráðherra. En látum það liggja á milli hluta.

Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu vegna þess að það skiptir máli þegar ég nefni það sem ég tel að þurfi að huga að í vinnu velferðarnefndar og ég ítreka að ég er sammála hæstv. ráðherra um nauðsyn þessarar lagasetningar. Ég veit að það eru margir, ekki bara heilbrigðisstarfsmenn heldur líka þeir sem nýta sér heilbrigðisþjónustu, sem bíða eftir að lagaramminn verði skýrður með þeim hætti sem hér er lagt til að stærstu leyti.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins afgreiddi þetta mál fyrir sína hendi fyrir nokkru með nokkrum efnislegum fyrirvörum líkt og hann gerði á fyrra þingvetri. En það er fyrst og síðast eitt atriði sem hefur komið til umræðu hér, bæði hjá hæstv. ráðherra og ekki síst í gríðargóðri ræðu félaga míns, hv. þm. Birgis Þórarinssonar. Það er um það hver skuli rannsaka óvænt atvik.

Nú er það þannig að það er verið að veita, að því ég best sé, embætti landlæknis frumkvæðisheimild til rannsókna slíkra mála sem getur í mínum huga kannski orkað tvímælis, ekki síst þegar það liggur fyrir að samkvæmt lögum ber heilbrigðisstofnunum að tilkynna um öll óvænt atvik í þeirra þjónustu og það eru engar vísbendingar að því ég veit sem benda til þess að þessari tilkynningarskyldu sé ekki sinnt, en látum það liggja á milli hluta.

Bæði Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélag Íslands leggja á það áherslu, og kannski má segja að Læknafélag Íslands taki jafnvel sterkar til orða en hjúkrunarfræðingar, að það sé tímaskekkja sem felist í því að embætti landlæknis skuli, vegna eftirlitshlutverks sem landlæknir vissulega hefur og er gríðarlega mikilvægt með heilbrigðisþjónustu, hafa einnig á hendi rannsókn óvæntra atvika sem þar gerast. Þetta er megináhyggjuefni mitt þegar kemur að þessu frumvarpi. Ég tel að það sé nauðsynlegt — ég heyrði hvað hæstv. ráðherra sagði hér áðan, hann er ekki mótfallinn því, hann er ekki viss um að þetta sé rétti tíminn, að við þurfum að stíga kannski skrefin varlega hér, en þá bið ég um það að menn velti því fyrir sér að rannsókn óvæntra atvika í heilbrigðisþjónustu kunni að leiða í ljós að það hafi verið brotalamir í eftirliti með heilbrigðisþjónustu, þ.e. hjá landlækni sjálfum. Það er sérkennilegt þegar við horfum til þess að aðili sé settur í þá stöðu, embætti landlæknis, að þurfa hugsanlega að rannsaka atvik sem rekja má til hugsanlegrar handvammar embættisins sjálfs er varðar eftirlit gagnvart heilbrigðisstarfsmanni, gagnvart mönnun heilbrigðisstofnana, aðbúnaði o.s.frv., að hann hitti sjálfan sig fyrir. Ekki síst af þessum sökum hygg ég að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvort það sé ekki rétt sem Læknafélag Íslands og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggja til, kannski með ólíkum hætti en niðurstaðan er sú sama, að við komum á fót sjálfstæðri rannsóknarnefnd óvæntra atvika í heilbrigðisþjónustu. Við getum sótt fyrirmynd að einhverju leyti í rannsóknarnefnd flugslysa, umferðarslysa o.s.frv., mekanisminn er til, hann er þekktur. Ef við náum fram þessum breytingum í góðu samráði og samvinnu við hæstv. heilbrigðisráðherra þá held ég að við getum orðið nokkuð sannfærð um að við séum að stíga mikilvæg skref fyrir heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisstofnanir en ekki síst fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.