154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[18:51]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsögu hér öðru sinni á frumvarpi sem hefur marga ágæta og mikilvæga þætti. En það sem er vont og ég hef áður gagnrýnt hér í þessari pontu er að hér er komið frumvarp sem ætlar að banna Salem og Capri bláan og aðrar sígarettur með mentólbragði. Í rökstuðningnum, eins og ráðherra kom inn á, eru börn og ungmenni í forgrunni sem er og væri gott og blessað og sjálfsagt ef hægt væri að færa rök fyrir því að Salem, Capri blár og aðrar mentólsígarettur hefðu einhvern tímann gert börnum eitthvað umfram aðrar sígarettutegundir en svo er einfaldlega ekki. Í frumvarpinu er rökstuðningurinn nefnilega vægast sagt rýr. Þar er eingöngu vísað til þess að líkur séu á að tóbaksneysla hefjist ef tóbaksvörur hafi einkennandi og bragðbætandi bragð, annað en af tóbaki. Eins og segir í greinargerðinni kemur fram í 15. lið formála tilskipunarinnar að í viðmiðunarreglum vegna rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir sé sérstaklega hvatt til þess að innihaldsefni sem auka bragðgæði, skapa þá hugmynd að tóbaksvörur hafi heilsufarslegan ávinning, tengist orku og lífsþrótti eða hafi litunareiginleika séu fjarlægð. Í 16. lið formála tilskipunarinnar er vísað til þess að líkur séu á að tóbaksneysla hefjist ef tóbaksvörur hafi einkennandi bragð annað en bragð af tóbaki.

En, forseti, afleiðingar af þessu frumvarpi eru ekki að bannaðar verði í stórum stíl jarðarberja- eða súkkulaðisígarettur eða eitthvað slíkt sem væri vel skiljanlegt að væru girnilegri börnum en æskilegt væri og hefðu þessa eiginleika eins og greinargerðin kveður á um. Hér er verið að banna mentólsígarettur sem tæplega fjórðungur reykingafólks á Íslandi kýs að reykja umfram aðrar tegundir, mentólsígarettur, sem er ekki nokkur einasta samstaða um á meðal reykingafólks að séu eitthvað bragðbetri en aðrar tegundir. Það eru ekki unglingar að byrja að reykja sem flykkjast til að eiga gæðastundir með mentólsígarettunum. Eins og ég hef áður orðað það hér í þessari pontu eru það Jónína Jónínudóttir og vinkonur hennar í saumaklúbbnum sem eiga sínar gæðastundir úti í sígó með Capri bláum og við ætlum hér að taka það frá þeim og fjórðungi reykingafólks á Íslandi með, að því er mér sýnist, litlum eða engum rökstuðningi.

Forseti. Því miður finnst mér þetta því vera einhvers konar sýndarlýðheilsuaðgerð þar sem hægt er að tikka í box um að hér séum við að koma í veg fyrir að börn byrji að reykja án þess að það sé stutt viðhlítandi gögnum eða rökstuðningi. Það er því einfaldlega engin rökrétt né lögfræðileg stoð fyrir því banni sem frumvarpið felur í sér. Ég legg því til, forseti, að í hv. velferðarnefnd verði frumvarpinu breytt á þann hátt að það haldi sér hvað varðar það að banna sígarettur sem eru vissulega og óumdeilanlega bragðbætandi. Bönnum jarðarberja- og súkkulaðisígarettur hvers konar en mentólbragðið verði fellt þar undan, enda ekki nokkur rökstuðningur fyrir því að það sé yfir höfuð bragðbætandi eða að tóbaksneysla aukist með veru mentólbragðs á markaðnum.

Forseti. EES-samningurinn er mikilvægasta viðskiptasamningssamband sem við Íslendingar eigum en, forseti, stundum er það svo að þær innleiðingar sem okkur er boðið upp á hér eru bara helber vitleysa eins og ég tel þetta tiltekna bann vera. Einnig er það reyndar svo að tilskipunin sem þetta frumvarp byggist á er frá árinu 2014. Hún er sem sagt níu ára gömul og er að mörgu leyti úrelt. Á þeim tíma hafa reykingar farið minnkandi þrátt fyrir að þessi innleiðing hafi ekki átt sér stað. Það er fyrst og fremst vegna forvarna, forseti, því að upplýst umræða um forvarnir er alltaf betri en boð og bönn, ég tala nú ekki um ef forsendur viðkomandi banns eru jafn órökstuddar og hér er raunin.

Forseti. Ég vil að auki tæpa á nokkrum atriðum sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins setti fyrirvara um varðandi þetta mál. Það er í fyrsta lagi að frumvarpið sem gerir ráð fyrir banni við þessum bragðefnum taki gildi strax, eins og við skiljum frumvarpið. Þarna er gengið mun harðar fram en tilskipun Evrópusambandsins. Í þeim löndum þar sem hlutdeild sígaretta með bragðefnum var yfir 3% var veittur sex ára aðlögunartími. Hér á landi er hlutdeild bragðefnasígaretta yfir 20% en engu að síður á ekki að gefa neinn aðlögunartíma, fyrir utan að það er augljóst að söluaðilar munu lenda í vandræðum með slíkan lager. Bent er á að í 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB, sem frumvarp þetta felur í sér innleiðingu á, segir:

„Vörur með einkennandi bragði sem seljast í meira magni ætti þó að taka af markaði í áföngum yfir lengri tíma til að gefa neytendum hæfilegan tíma til að skipta yfir í aðrar vörur.“

Engu að síður kveður þetta frumvarp á um að gildistakan sé strax. Telur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins því skort á aðlögunartíma fara gegn þessu markmiði og órökstutt hvers vegna það er lagt til hér á landi.

Að auki, forseti, viljum við koma á framfæri að ekki er lagt mat á áhrif sem bannið hefur á tekjur ríkissjóðs af tóbaksgjaldi. Gjaldið frá mentól- og myntusígarettum er talið nema rúmum milljarði ár hvert miðað við áætlaða 23,5% markaðshlutdeild í sígarettum. Ríkissjóður hefur af því beina fjárhagslega hvata að ganga ekki lengra með brattri innleiðingu.

Með frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir viðamiklu hlutverki ÁTVR við eftirlit og framkvæmd þess. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur áhyggjur af kostnaði við eftirlit, svo sem við innleiðingu kerfa. Rétt er að árétta það sem fram kemur í tilskipun 2014/40/ESB, að takmarka eigi byrðar á lítil og meðalstór fyrirtæki af völdum aukinna viðbótarkvaða um skýrslugjöf að því marki sem mögulegt er.

Þá er búið að fela Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að sjá um eftirlit með nikótínvörum á meðan ÁTVR á að bera ábyrgð á eftirliti með tóbaksvörum. Neytendastofa ber svo ábyrgð á eftirliti með enn öðrum neytendavörum. Hætta er á að ósamræmi verði á ákvörðunum eftirlitsaðila, framkvæmd eftirlitsins verði dýrari og meira íþyngjandi en það þyrfti að vera til að ná markmiðum sínum. Óeðlilegt er að heildsala í einokunarstöðu eins og ÁTVR hafi eftirlit með sjálfri sér. Eðlilegra væri að annar eftirlitsaðili bæri ábyrgð á eftirliti með öllum neytendavörum.

Ég vil að lokum, forseti, ítreka hvatningu til hv. velferðarnefndar um að taka þetta mál til yfirvegaðrar skoðunar svo að við séum ekki eingöngu að setja reglur sem hljóma vel heldur einblínum á að setja þær reglur sem hafa raunveruleg áhrif með raunverulegum rökstuðningi.