154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[11:13]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér um ræðir snýst um að leggja niður heila atvinnustarfsemi, leggja niður heila atvinnugrein, og því er tillaga hæstv. forseta mjög eðlileg ef litið er til þess hvert hlutverk atvinnuveganefndar er samkvæmt þingskapalögum. Þetta ætti ekki að valda miklum ágreiningi en við erum stödd hér í þessari atkvæðagreiðslu um þetta og það er einmitt ágreiningur um þetta. Þá er líka hægt að spyrja á móti: Hvað er það sem hv. þingmaður hefur á móti því að málið gangi til atvinnuveganefndar? Getur það verið að í frumvarpinu sé ekkert fjallað um hin efnahagslegu áhrif sem frumvarpið, ef það verður að lögum, hefur á fjölda fólks sem myndi missa lífsviðurværi sitt, ekkert fjallað um að hér er um að ræða mjög bersýnilegt brot á stjórnarskrá, á atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar? Þetta eru allt atriði, frú forseti, sem eiga heima í atvinnuveganefnd.