154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[13:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir að taka svona skjótt og vel í beiðni mína um sérstaka umræðu um samkeppnismál. Við vitum að virk samkeppni skilar heimilum betri þjónustu, fjölbreyttari vöru og lægra verði og það er þess vegna sem stjórnvöld gegna lykilhlutverki í því að efla og vernda samkeppni á öllum sviðum. Virkt samkeppniseftirlit er líka sérstaklega mikilvægt á tímum þar sem verðbólga og vextir herja á heimilin og þegar sífelldar verðlagshækkanir gera okkur öll frekar dofin fyrir eðlilegri þróun verðlags. Við þær aðstæður er hætt við að mýsnar fari á kreik ef kötturinn er læstur inni.

Markmiðið með samkeppniseftirliti er að styrkja heilbrigða samkeppni og neytendavernd með því að berjast gegn fákeppni, ólögmætu samráði og annarri markaðsmisnotkun og þau eru mörg dæmin um hvernig það hefur sannað sig. Ég get nefnt olíusamráðið og sektir sem voru lagðar á Valitor og Mjólkursamsöluna fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína.

Síðustu vikur hefur svo töluvert farið fyrir umræðu um samkeppnismál frá því að Samkeppniseftirlitið lagði 4,2 milljarða kr. stjórnvaldssekt á Samskip vegna víðtæks ólögmæts samráðs við Eimskip. Rannsóknin stóð yfir í um áratug og hófst, eins og flest önnur mál sem Samkeppniseftirlitið tekur til rannsóknar, á því að eftirlitinu bárust ábendingar frá bæði viðskiptavinum og keppinautum fyrirtækjanna.

Frú forseti. Það er áhugavert að bera saman samband og samskipti samkeppnisyfirvalda hér á landi og helstu hagsmunaaðila atvinnulífsins við það sem gengur og gerist víða í löndum í kringum okkur. Á Norðurlöndum og almennt í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við beita hagsmunasamtök atvinnulífsins sér almennt markvisst gegn samkeppnisbrotum enda skilningurinn sá að þau skaði bæði hagsmuni heimila og atvinnulífsins. Hér virðist dýpra á slíkri nálgun og sjónarmið sumra hagsmunasamtaka, atvinnuleysis og jafnvel fjölmiðla virðist frekar það að Samkeppniseftirlitið sé atvinnulífinu fjötur um fót. Ég hef ekki áhyggjur af því að ráðherra samkeppnismála sé þeirrar skoðunar og ég hef ekki áhyggjur af því að innan ríkisstjórnarinnar sé einhugur um að grafa undan Samkeppniseftirlitinu, en ég hef áhyggjur af því að það verði engu að síður útkoman ef stjórnvöld sofa á verðinum eða láta stýra sér í þá átt. Það er nefnilega hlutverk stjórnvalda að vera vakandi fyrir þeim miklu hagsmunum heimila og langflestra fyrirtækja sem felast í heilbrigðum samkeppnismarkaði, enda er það alls ekki svo að fyrirtæki vilji almennt ekki að eftirlit sé haft með samkeppni. Lítil og meðalstór fyrirtæki, máttarstólpinn í íslensku atvinnulífi, treysta einmitt á skilvirkt og gott eftirlit með samkeppnismörkuðum.

Þetta þýðir auðvitað ekki að Samkeppniseftirlitið okkar sé yfir gagnrýni hafið. Það er t.d. eðlilegt að skoða einfaldara og skilvirkara regluverk til að ýta undir samkeppni og neytendavernd. Við í Viðreisn höfum lagt áherslu á að efla leiðsagnarhlutverk Samkeppniseftirlitsins vegna þess að það myndi bæði spara tíma og fjármagn. Eftirlitið hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki sinnt því hlutverki sem skyldi. Spurningin er: Af hverju? Getur verið að Samkeppniseftirlitið hafi ekki bolmagn til þess þegar litið er til annarra lögbundinna verkefna þess og svo þess fjármagns sem eftirlitið hefur úr að spila?

Það er í ljósi þessa sem ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er að mati hennar besta leiðin til að gera eftirlit með samkeppnisbrotum skilvirkara? Hafa stjórnvöld að mati ráðherra tryggt Samkeppniseftirlitinu nægilegt svigrúm til að sinna eftirliti með samkeppnisbrotum?

Eins og svo margt sem lýtur að hagsmunum almennings kemur samkeppnislöggjöfin okkar að miklu leyti frá Evrópusambandinu. Enn er þó ýmislegt sem við eigum eftir að innleiða í íslensk lög og má þar helst nefna evrópsku skaðabótatilskipunina frá 2014 sem eykur verulega möguleika neytenda og fyrirtækja til að sækja bætur vegna samkeppnisbrota. Málið hefur vissulega ekki enn farið í gegnum EES-nefndina en það kemur ekki í veg fyrir að Ísland innleiði þessa réttarbót. Þess vegna spyr ég að lokum: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að Ísland innleiði þessa tilskipun fljótlega?

Ég hlakka svo til umræðunnar hér og vona að hún gefi skýrari mynd af því hvernig við sjáum þessi mál fyrir okkur í náinni framtíð.