154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[13:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við búum við lítið hagkerfi þar sem fákeppni er á lykilmörkuðum. Það er einmitt þess vegna sem neytendavernd og samkeppniseftirlit skiptir hér miklu máli. Öflugt samkeppniseftirlit er ekki íþyngjandi bákn sem þarf að leggja niður. Þvert á móti. Á síðasta kjörtímabili samþykktu stjórnarflokkarnir frumvarp um að veikja Samkeppniseftirlitið, m.a. með því að heimila samráð fyrirtækja ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt sem fyrirtækin eiga sjálf að leggja mat á hvort þau uppfylli, sem gerir eftirlitið torveldara. Fyrir breytinguna gátu fyrirtækin sótt um undanþágu til Samkeppniseftirlitsins vegna fyrirhugaðs samráðs. Samráð á íslenskum mörkuðum er of algengt og málarekstur um það tekur óratíma. Það virðist vera hagur fyrirtækjanna að skila upplýsingum seint og illa. Málin dragast á langinn og neytendur borga brúsann. Við getum rifjað upp málið um samráð Húsasmiðjunnar og BYKO á árunum 2010–2011. Húsasmiðjan gerði sátt vegna samráðsins en stjórnendur BYKO héldu málinu til streitu og töpuðu því á endanum árið 2021. Taktíkinni svipar til málsins um Eimskip og Samskip þótt við vitum ekki um endanlega niðurstöðu þess máls en umfjöllun um það hefur staðið yfir í meira en áratug. Reyndar sagði Adam Smith í bók sinni Auðlegð þjóðanna árið 1776 að fjármagnseigendur gætu undir engum kringumstæðum komið saman, jafnvel þótt tilefnið væri einungis til ánægju og skemmtunar, án þess að félagsskapurinn endaði í einhvers konar samsæri gegn almannaheill eða leynilegu samkomulagi um verðhækkanir. Þessi orð hans hafa víða um heim verið notuð sem rök fyrir öflugu samkeppniseftirliti. Í íslensku viðskiptalífi á sér stað samþjöppun valds og áhrifa. Rökin fyrir sterku samkeppniseftirliti varða ekki einungis skilvirkni markaða heldur einnig að lýðræðinu gæti staðið ógn af afar stórum fyrirtækjum og auðkýfingum.