154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[13:45]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir framtakið og framsöguna; mikilvæg umræða til að taka hér á þinginu. Virk samkeppni er auðvitað grunnforsenda öflugs efnahagsumhverfis. Samkeppnisumhverfið þarf að vera þannig úr garði gert að hagsmunir almennings séu alltaf hafðir að leiðarljósi en virk og heilbrigð samkeppni skilar mestum ávinningi til neytenda. Slík samkeppni skilar reyndar líka ávinningi fyrir fyrirtækin því að hún stuðlar að bættum rekstri og gagnast þannig samfélaginu öllu. Í síminnkandi veröld skiptir samkeppnishæfni atvinnulífsins miklu máli og því mikilvægt að sömu samkeppnisreglur og -skilyrði gildi hér og á samanburðarmörkuðum.

Fjölmargar breytur hafa haft jákvæð áhrif á samkeppni í íslensku atvinnulífi undanfarin ár og áratugi en aðildin að EES og sala á ríkisrekstri hefur sannarlega skipt sköpum. Virkt og öflugt samkeppniseftirlit er lykilatriði þegar kemur að því að tryggja virka samkeppni og vinna gegn misnotkun fyrirtækja á markaði. Stjórnvöldum er í því skyni falið mikilvægt vald og það er auðvitað mikilvægt að valdheimildirnar séu í lögmætum eftirlitstilgangi, að þingið gæti þannig meðalhófs í þeim efnum. Það er sömuleiðis mikilvægt að samkeppnisyfirvöld, eins og önnur stjórnvöld, haldi sig innan valdheimilda og fari að lögum. Sé það ekki gert, verði misbrestur þar á, verður auðvitað að grípa til aðgerða. Hver hefur annars eftirlit með eftirlitinu? Þá verður að undirstrika mikilvægi þess að eftirlitsstofnanir eins og Samkeppniseftirlitið séu sjálfstæðar í störfum sínum.

Langur málsmeðferðartími mála á borði Samkeppniseftirlitsins er augljós brotalöm í íslensku samkeppnisumhverfi. Þessi langi tími hefur slæm áhrif á alla hlutaðeigandi, bæði þau fyrirtæki sem eru til skoðunar og þá sem kunna að hafa skaðast af samkeppnisbrotum. Með þessari umræðu vekur hv. málshefjandi mikilvæga athygli á stöðu samkeppnisumhverfisins og vonandi getur hæstv. ráðherra nýtt sér gagnlegar ábendingar héðan úr þingsal.