154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[15:13]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á fundi Alþýðusambands Íslands og Neytendasamtakanna í síðustu viku fór hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra yfir viðbrögð ríkisstjórnarinnar við verðbólgu. Þá sagði hún, með leyfi forseta: „Ég er á því að við höfum ekki tekið verðbólguna nógu alvarlega strax.“

Þetta eru stór orð og áfellisdómur yfir efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar. Verðbólgan er enn þrálát þrátt fyrir miklar vaxtahækkanir. Nú er 8% verðbólga og stýrivextir standa í 9,25%. Frá því að verðbólgan fór að láta á sér kræla hafa í stórum dráttum tvær leiðir staðið til boða. Í fyrsta lagi leið ríkisstjórnarinnar: Að bíða átekta, benda á Seðlabankann og kalla þannig hærri vexti yfir heimilin og fyrirtækin í landinu. Þetta er sú leið sem hefur verið farin hingað til og þess vegna erum við þar sem við erum. Hins vegar hefur staðið til boða leið Samfylkingarinnar, m.a. í formi fullfjármagnaðs kjarapakka, aukins aðhalds í ríkisfjármálum til að slá á þenslu, m.a. með hærri gjöldum á stórútgerð sem skilar nú methagnaði og arðgreiðslum, á fjármálageirann þar sem lækkun gjalda hefur ekki skilað sér til neytenda og á tekjuhæstu hópana, og samhliða því sértækar aðgerðir til að verja tekjulægri einstaklinga og ungt fólk fyrir verðbólgunni. Við höfum bent á að þegar ríkisstjórnin gerir minna til að taka á verðbólgunni þá þarf Seðlabankinn að gera meira. Þarna togast á ólík sjónarmið; sértækar aðgerðir á tekjuhlið og hærri vextir sem leggjast flatt á alla. Ríkisstjórnin hefur valið hærri vexti.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hún sammála hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra um að ríkisstjórnin hafi ekki tekið verðbólguna nógu alvarlega strax? Munum við sjá meira af því sama eða kemur til greina að fara aðra leið, t.d. með kjarapakka Samfylkingar? Að lokum: Er það mat ríkisstjórnarinnar að þjóðin vilji hærri vexti frekar en sértækar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna eins og Samfylkingin hefur lagt til?