154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

skoðun þess að taka upp nýjan gjaldmiðil.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að taka upp stefnumál Viðreisnar. Það er eðlilegt að við ræðum þessi mál og ég held að ég hafi sagt það í þessu viðtali að það kæmi ekki á óvart að umræða um nýjan gjaldmiðil væri fyrirferðarmeiri um þessar mundir en hún hefur verið undanfarin ár, einfaldlega vegna stöðu á verðbólgu og vöxtum. Ég vil hins vegar minna hv. þingmann á það að við höfum auðvitað rætt þetta áður og í okkar tíð hér á Alþingi var unnin alveg gríðarlega vönduð skýrsla um raunhæfa valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum af hálfu Seðlabanka Íslands, ítarleg skýrsla sem kom út árið 2012, og að auki var fjallað líka um þessi mál í skýrslu sem gefin var út 2018 um framtíð íslenskrar peningastefnu. Þar er niðurstaðan sú að raunhæfir valkostir Íslands í gjaldmiðlum séu í raun tveir; að halda í íslenska krónu með sjálfstæðri peningastefnu og ákveðnum þjóðhagsvarúðartækjum eða að taka upp evru í kjölfar inngöngu í ESB og Evrópska myntbandalagið.

Það sem ég var að segja í þessu viðtali var að þessi ákvörðun snýst ekki bara um gjaldmiðilinn. Hún er ekki þeirrar gerðar að við getum sagt um það að taka upp nýjan gjaldmiðil: „Hey presto“, öll mál leyst. Það er ekki eins og það sé ein samræmd verðbólga innan Evrópusambandsins í dag og þar nægir bara að horfa til austurhluta álfunnar þar sem verðbólga er miklu hærri en á Íslandi og síðan til annarra ríkja þar sem hún er lægri. En það sem ég vil líka segja hér er að þó að við ræðum þetta bara út frá gjaldmiðli þá erum við ekki að ræða þetta út frá öllum öðrum þáttum. Það sem ég hef kannski haft mestar áhyggjur af þegar möguleg innganga Íslands í Evrópusambandið hefur verið rædd er í raun og veru lýðræðishallinn sem gæti birst lítilli þjóð á jaðri Evrópusambandsins, áhrif hennar á mikilvægar ákvarðanir (Forseti hringir.) og hvaða áhrif við myndum í raun og veru hafa. Þess vegna vara ég við því að við ræðum þetta eingöngu út frá gjaldmiðlinum þó að hann sé að sjálfsögðu mikilvægur og þar séu kostir og gallar. Við þurfum að ræða þetta út frá öðrum þáttum líka.