154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[15:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér finnst rétt að koma hér upp til þess að ítreka það sem fram kom í umræðum um frumvarp mitt um Mannréttindastofnun Íslands þar sem ég upplýsti að ég myndi, að höfðu samráði við forseta þingsins, leggja til að þessu máli yrði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar af þeirri einföldu orsök að hér er verið að leggja til nýja stofnun sem heyrir undir Alþingi. Nú liggur auðvitað ekki fyrir ákvörðun um það en það er tillagan sem um ræðir og því er eðlilegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem fer með stofnanir þingsins, fái þetta mál til sín. Hún getur þá eftir atvikum óskað umsagnar frá allsherjar- og menntamálanefnd ef vilji er til þess en mér finnst það algerlega liggja ljóst fyrir að þetta mál á heima þar.