154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[16:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki oft sem maður hreyfir andmælum þegar verið er að vísa til nefndar en í þessu tilviki var verið að vísa máli sem hreinlega fjallar um nýsköpun til allsherjar- og menntamálanefndar af þeirri einföldu ástæðu að orðið þekkingarsamfélag kemur fyrir í titlinum. Fyrst orðið þekkingarsamfélag kemur fyrir í titlinum virðist það vera þannig hér innan húss að þá hljóti þetta að vera menntamál. Þetta mál er miklu meira nýsköpunarmál, atvinnumál, eins og stendur í sjálfri tillögunni, og því er það miklu meira en rétt að það fari í allsherjar- og menntamálanefnd. Sjálfur hæstv. ráðherra og aðrir þingmenn hafa meira að segja lýst því yfir að það hljóði nú bara eins og það ætti að fara þangað. Mér finnst við þurfa að hugsa aðeins hvort við erum að setja kannski allt of mikið í allsherjar- og menntamálanefnd, bara af því að það stendur eitthvað um þekkingu eða menntun í málum.