154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli að fara vel með opinbert fé og tryggja þannig nauðsynlega þjónustu og treysta innviði fyrir fólkið í landinu og út á það gengur samfélagið og í rauninni pólitíkin líka. Báknið hefur hins vegar aldrei verið stærra og á því ber Sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst ábyrgð. Þess vegna er vel við hæfi að ritari flokksins fái hér tækifæri til að ræða við sjálfan formann flokksins.

Það eru tveir punktar frá okkur í Viðreisn. Við teljum mikilvægt að halda áfram að skoða sölu ríkiseigna þannig að það sé alveg skýrt. Við styðjum samt ekki sölu Landsvirkjunar eins og umræða hefur verið um innan Sjálfstæðisflokksins, m.a. af hálfu eins ráðherra, og allra síst meðan Sjálfstæðisflokkurinn kemur endalaust í veg fyrir það að við komum inn almennilegu auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Hitt atriðið er síðan að það er mikilvægt að við höldum áfram að selja ríkiseigur sem við teljum að ríkið þurfi ekki að eiga eða vesenast í, þar með talið Íslandsbanka, m.a. til þess að greiða niður skuldir, minnka vaxtagjöld og byggja upp innviði. En við vitum að áframhaldandi sala á Íslandsbanka er í sjálfheldu, ekki bara vegna innanbúðarátaka við ríkisstjórnarborðið heldur ekki síður vegna þeirrar tortryggni og þess vantrausts sem ríkir hjá almenningi í garð þess söluferlis sem síðast var og í garð Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að þessum málum. Við teljum í því ljósi mikilvægt fyrir áframhaldandi sölu á Íslandsbanka að flytja forræði málsins, söluferli málsins, yfir til hæstv. viðskiptaráðherra eða hæstv. forsætisráðherra. Viðreisn leggur mikla áherslu á að þetta söluferli verði klárað en við gerum okkur líka grein fyrir því að tortryggnin úti í samfélaginu rýrir traust á sjálfu ferlinu. Þess vegna þurfum við að breyta um leikskipulag og fela annaðhvort hæstv. viðskiptaráðherra eða hæstv. forsætisráðherra málið.