154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[16:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil kannski að byrja á að gera grein fyrir því að áður en ég fór á þing þá var ég starfsmaður Menntamálastofnunar, vann þar áður hjá Námsmatsstofnun þannig að ég var í því ferli þegar sameining Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar og nokkrum verkefnum úr ráðuneytinu var gerð og varð að einni stofnun, þ.e. Menntamálastofnun. Sú lýsing sem birtist mér hérna í þessu frumvarpi ráðherra hljómar rosalega mikið eins og lýsing á Menntamálastofnun. Smábreytingar, svona tog svona hingað og þangað, smá aftur til ráðuneytisins o.s.frv. Þannig að ég skil ekki alveg af hverju grunnurinn, sem er í frumvarpinu, er að leggja niður Menntamálastofnun til að búa síðan til einhverja aðra hliðstæða stofnun sem er með nokkurn veginn öll sömu verkefnin þegar allt kemur til alls, alla vega samkvæmt minni reynslu af því að hafa unnið þar. Er nauðsynlegt að segja upp öllu starfsfólki, líka því starfsfólki sem kemur til með að sinna í raun nákvæmlega sömu þjónustu og Menntamálastofnun sinnir núna þá í nýrri stofnun?

Mér líður pínulítið eins og þegar maður horfir galdramann, sjónhverfingamann, sem er að leika sér að bollum og undir er einhver kúla. Svo fer hún færð fram og til baka og kúlan lendir undir einhverjum öðrum bolla en það er samt sama kúlan. Það er sama þjónustan í rauninni, það er hvílir sama skylda á stjórnvöldum í rauninni að sinna þessum verkefnum sem þarna eru undir.

Ég skil það alveg að það þurfi að endurskipuleggja aðeins. En á þeim tíma sem ég vann þarna komu inn ný verkefni. Lestrarverkefnið kom inn, minnkaði og var breytt. Microbit-verkefnið kom inn. Það er ekkert þannig að Menntamálastofnun hafi verið einhver stöðnuð stofnun eða eitthvað því um líkt sem var bara eitthvert bákn, hún var mjög dýnamísk. Það komu inn verkefni, það fóru út verkefni. Það er alveg hægt að endurhanna þessa þjónustu (Forseti hringir.) á allt annan hátt án þess endilega að fara í heildarendurskoðun á lögum sem er tiltölulega nýbúið að setja.