154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[17:06]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka að mörgu leyti undir orð hv. þm. Björns Leví Gunnarssonar. Þetta virðist vera keimlíkt. Mig langar líka að velta upp og spyrja ráðherra út í, af því að hlutverkið virðist vera ósköp svipað því sem var áður, hvort það sé reiknað með að í þessari nýju stofnun verði sérstök vinna sem snúi að því að bæði styrkja og efla frumkvæði og sköpun hjá grunnskólabörnum, því að það er raunverulega eitt af því sem ætti að vera helsta hlutverk skólans; að gera krakkana forvitna, að styrkja sköpunargleðina frekar en að draga úr henni. Það er því miður það sem svo oft gerist, og er að mörgu leyti bara mín persónulega reynsla úr skólakerfinu, að skólinn er ekkert sérstaklega áhugaverður. Þetta er eitthvað sem við ættum að einbeita okkur að. Við ættum að einbeita okkur að því að gera skólann áhugaverðan fyrir börnin og efla bæði sköpunargáfuna og forvitnina. Að sama skapi þurfum við líka að skoða og velta við öllum steinum í þeim námsfögum sem verið er að kenna: Hvaða tilgangur er á bak við kennslu hvers fags? Hvaða eiginleikar og hæfileikar eru það sem við viljum styrkja í nemendum þegar kemur að því að kenna ákveðin fög? Því miður þykir mér það stundum ekki vera alveg skýrt. Og það er mjög miður.