154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

240. mál
[17:33]
Horfa

Elva Dögg Sigurðardóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við erum hér að samþætta þjónustu en mig langar að færa umræðuna aðeins annað. Ég þekki það persónulega að hafa þurft á ákveðnum tímapunkti á mínum unglingsárum að sækja mikla aðstoð og þjónustu hjá hinu opinbera. Um leið og ég varð 18 ára fékk ég sent heim bréf í pósti þess efnis að þar sem ég væri orðin fullorðin þá ætti ég ekki lengur rétt á aðstoðinni sem ég var að nýta mér og hafði fengið árin á undan. Í stuttu máli sagt sem unglingur í mikilli vanlíðan á þeim tímapunkti upplifði ég mikla hræðslu og líka reiði því mér fannst eins og kerfið væri að bregðast mér, það hafði aðstoðað mig, og svo bara bless og búið á einni nóttu.

Því langar mig að spyrja hæstv. mennta- og barnamálaráðherra: Hvað verður um þessa einstaklinga í dag? Hvað gerist hjá þeim ungmennum sem þegið hafa þjónustu frá stofnunum ríkisins vegna fjölbreyttra ólíkra áskorana þegar þau ná 18 ára aldri? Hvað verður um þá einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda? Hefur einhver vinna farið í það að grípa þá einstaklinga og hvar er sú vinna þá stödd? Og ef ekki, deilir ráðherra þeirri skoðun minni að nauðsynlegt sé að gera slíkt?