154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Út af því sem hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði um að ýmislegt hefði verið hrakið um þetta mál o.s.frv. þá hefur alla vega ekkert af því sem Píratar hafa sagt að hafi verið niðurstaða þessa máls verið hrakið. Ég skora bara á fólk að draga það upp og sýna fram á annað. Sami þingflokksformaður segir að hér sé um að ræða túlkun umboðsmanns á einu atriði sem engan í ferlinu hafi grunað að yrði túlkað á þann hátt. Jú, nákvæmlega, það var grundvallarstefið frá upphafi að þarna væri vafi á því að — ekki vafi, það var frekar augljóst að fjármálaráðherra væri vanhæfur til að taka þessa ákvörðun. Það var sagt alveg frá byrjun. Þannig að þetta er enn einn fyrirslátturinn. Það er einhvern veginn verið að reyna að segja eitthvað sem er bara algjörlega augljóslega rangt. Og já, það þarf að gera ýmislegt, það eru mörg verkefni fram undan og það er mjög sorglegt að við þurfum að vera að ræða þetta mál í dag þegar staðan í efnahagsmálum er eins og hún er, staðan í húsnæðismálum er eins og hún er. Við erum að fara að ræða samgönguáætlun hérna á eftir. (Forseti hringir.) Það er stórt mál, vissulega, en er það í alvörunni viðeigandi í dag?