154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[16:10]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Eðli málsins samkvæmt þá verður kannski ekki farið mjög á dýptina hér í fyrri umræðu um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun. Mig langar að nota tækifærið til að tæpa á nokkrum efnisatriðum og svo veit ég og treysti því að ályktunin verði tekin til mjög rækilegrar umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það er sú umfjöllun sem skiptir auðvitað mestu máli og það sem út úr henni kemur og það hvernig við gerum tillögu til seinni umræðu um þingsályktunartillöguna hér á hinu háa Alþingi.

Það fyrsta sem ég rak augun í var kannski skorturinn á því að ég sæi beina tengingu við markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það er talað um vegvísi einhvers staðar í textanum og 55% samdrátt fyrir árið 2030 og það eru nú rúmlega sex ár þangað til. Ég velti því fyrir mér hvernig ríkisstjórnin hyggist ná utan um það verkefni af því að það er auðvitað mjög brýnt, eins og ég held að enginn deili um hér í þessum sal. Við vitum að u.þ.b. þriðjungur af losuninni hér á landi kemur frá vegasamgöngum og það hefur mikið verið rætt um orkuskiptin og orkuskipti í samgöngum á landi sem fyrsta skref. Það eru auðvitað margar áætlanir í gangi og það er margt sem þarf að gera í einu en ég sé ekki bein tengsl þarna á milli samgönguáætlunar og þess vegvísis sem nefndur er í texta hennar. Það kemur væntanlega í ljós í umfjöllun nefndarinnar en það væri ágætt að fá það skýrt hér við fyrri umræðu.

Annað sem kann að hafa farið fram hjá mér við lestur tillögunnar en hæstv. ráðherra getur kannski skýrt betur hér eru nauðsynlegar lagaheimildir til álagningar flýti- og umferðargjalda. Nú verð ég bara að viðurkenna að það kann að vera að það séu komin fram frumvörp um breytingar á þessu en ég hygg hins vegar að þetta hljóti að vera mjög brýnt mál og hangi þráðbeint saman við bæði afgreiðslu fjárlagafrumvarps og einnig þessarar áætlunar. Ég þykist viss um að það verði góður hljómgrunnur fyrir því að taka upp slík gjöld. Þau hafa auðvitað verið tekin upp víða annars staðar og eru nauðsynleg til að stuðla að greiðum samgöngum. Þetta var annað atriðið.

Svo eru það svokölluð PPP-verkefni, samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stórframkvæmdir, sem við þekkjum náttúrlega en vitum samt að eru ekki jafn nærtæk á Íslandi og víða annars staðar. Mér skilst að það hafi t.d. illa gengið að fá tilboð í Hornafjarðarbrúna. Við vitum að fjármögnun einkaaðila er eðli málsins samkvæmt dýrari en fjármögnun ríkis og þess vegna er það nú yfirleitt þannig að ríkið fjárfestir í samgöngumannvirkjum og samgönguframkvæmdum. En síðan var mér bent á að það væri í fjárlagafrumvarpinu heimild er varðar Ölfusárbrúna nýju og þá skil ég það þannig að það þurfi þá í rauninni að veita heimild í fjárlagafrumvarpinu. Er það þá heimild til að tryggja betri kjör? Er það ríkisábyrgð? Og hvað segir það okkur um þessa aðferðafræði? Er hún kannski ekki mjög nýtileg hér á landi til að lágmarka áhættu ríkisins og kostnað við gerð stórra mannvirkja? Ég skil alveg að hið opinbera hafi áhuga á því að lágmarka þann kostnað og áhættu og þess vegna hafi þessi aðferðafræði nýst og verið nýtt víða. En mér virðist, við reyndar mjög fljótlega skoðun, að það sé kannski ekki að skila okkur því sem við vorum að vonast eftir, að við séum ekki að fá inn það einkafjármagn sem svona aðferðafræði á að skila.

Ég ætla ekki að tala mjög mikið um viðhaldsskuldina. Félagi minn, hv. þm. Logi Einarsson, ræddi hana í andsvörum við hæstv. ráðherra og ég held að hæstv. innviðaráðherra sé örugglega fullmeðvitaður um hana. En það þarf auðvitað að saxa á hana á hverju ári og við erum í umtalsverðri viðhaldsskuld. Mig minnir að ég hafi séð í tillögunni að viðhaldsþörfin sé metin á 70–80 milljarða á vegunum af Vegagerðinni og um 20 milljarða á flugvöllunum þannig að það þarf þá að saxa jafnt og þétt á þessar stóru upphæðir fyrir utan nýframkvæmdirnar.

Ég sé að það saxast á fleira hér en viðhaldsfé, það saxast á tímann minn í þessu ræðupúlti. Mig langar að síðustu að nefna tvennt. Í kjördæmavikunni í síðustu viku áttum við þingmenn í Suðvesturkjördæmi marga góða fundi með bæjarstjórnum í kjördæminu og þar var að sjálfsögðu rætt mjög mikið um almenningssamgöngur, samgöngusáttmálann fyrir höfuðborgarsvæðið og fjármögnun þeirra. Ég ætla að fá að segja hér að mér finnst ekki alveg sambærilegt að byggja upp almenningssamgöngur fyrir tvo þriðju hluta landsmanna á höfuðborgarsvæðinu og það að reka almenningssamgöngur í miklu smærri sveitarfélögum. Það er mín persónulega skoðun og ég held við getum ekki alveg borið það saman. Hins vegar er það alveg ljóst að við verðum að sjá til þess að samgöngusáttmálinn sé fjármagnaður og hann virki og við hreinlega verðum að tryggja greiðar og góðar almenningssamgöngur og koma fólki úr einkabílnum, rúmlega einni manneskju í bíl í umferðarteppu hér á hverjum morgni og hverju síðdegi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var næstsíðasta atriðið.

Síðasta atriðið varðar forgangsröðun jarðganga. Samkvæmt tillögunni eru Fjarðarheiðargöng í fremsta forgangi. Ég ætla að minnast á sunnanverða Vestfirði eins og aðrir hafa gert hér við þessa fyrri umræðu, m.a. í ljósi þess að við erum þar með mikla atvinnuuppbyggingu og mikla þungaflutninga á hverjum einasta degi frá Vestfjörðum og suður um til útflutnings. Því er mín spurning til hæstv. ráðherra kannski tiltölulega einföld hvað varðar jarðgangaáætlunina: Er valið eða forgangsröðunin byggð á þjóðhagslegu mati? Er hún byggð á einhverju öðru mati? Ég man svo langt í gamla daga að þá var það svolítið þannig að það var talað við þingmennina í kjördæmunum og spurt hvernig þeir vildu forgangsraða. Við erum nú sem betur fer ekki stödd þar lengur. En bara vegna stærðar framkvæmdarinnar við Fjarðarheiðargöng þá sé ég ekki í fljótu bragði að neitt annað verði gert hér næstu árin en að ráðast í þau og þá erum við að færa aftur fyrir hugmyndina eða verkefni eins og að fjölga jarðgöngum á Vestfjörðum.

Ég vil ekki tala um þetta í einhverjum svona togstreitutóni á milli kjördæma. Mig langar bara að skilja hvernig þessi forgangsröðun er ákveðinn. Ég skil alveg, eins og hæstv. ráðherra hefur nefnt þessari umræðu, að að sjálfsögðu ef við værum með alla pening í heiminum þá myndum við reyna að gera eins margt í einu og við gætum. En við gerum það ekki og þess vegna er svo mikilvægt að við skiljum forgangsröðunina og að fyrir henni séu rök sem eru bæði sanngjörn, skiljanleg og þjóðhagslega hagkvæm.