154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024 –2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024 –2028.

315. mál
[19:33]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir yfirferð hans yfir drög að komandi samgönguáætlun. Samgöngumál brenna á öllum íbúum þessa lands og hér með er hafin umræða er varðar uppbyggingu samgönguinnviða um allt land, ákveðna forgangsröðun og loforð um framkvæmdir. Þegar horft er yfir samgönguáætlanir liðinna ára og nú drög að samgönguáætlun verður maður hugsi yfir hve illa gengur að fara eftir þessu stefnumótandi skjali. Loforð eru árlega um framkvæmdir um allt land en svo virðist það því miður vera að mörgum framkvæmdum muni seinka verulega eða bara alls ekki komast til framkvæmda jafnvel svo áratugum skiptir. Þetta eru engar ýkjur, því miður, en ég vona innilega að nýjasta útgáfan, drög að samgönguáætlun, sé raunhæf til framkvæmda.

Skortur á fjármagni er algengasta skýringin á því að ekki er hægt að fara í allar framkvæmdir á samgönguáætlun. Ég skil það upp að vissu marki þegar skortir fjármagn og verkefni verða dýrari en áætlað var. Þess vegna fagna ég þeirri stefnumótandi áherslu að endurskoða skattheimtu af allri umferð og að stofnaður hafi verið vinnuhópur sem er nú starfandi og er líklega á lokametrunum með þá vinnu að markmiði, að allir sem nota vegina greiði fyrir þá mikilvægu uppbyggingu. En af hverju í veröldinni hefur ekki verið farið fyrr af stað með þá aðferðafræði til að sækja meira fjármagn? Hugsið ykkur þann fjölda ferðamanna sem kemur árlega hingað til lands en hefur ekki þurft að greiða veggjöld eða aðgang að öðrum áfangastöðum hér á landi í gegnum árin og tekur því ekki þátt í uppbyggingu þessara innviða.

Mig langar einnig að ræða jarðgangaáætlun. Nú hefur verið lögð fram ný forgangsröðun jarðganga. Mikil og knýjandi þörf er á jarðgöngum víða um land og við verðum að gera mun betur í þeirri uppbyggingu. Fjarðarheiðargöng eru efst í jarðgangaáætlun í drögum að samgönguáætlun, enda eru þau einu göngin sem eru fullhönnuð og tilbúin til framkvæmda. En áhyggjuefni mitt er sú staðreynd að ekki hafa verið framkvæmdir við gangagerð í að verða þrjú ár þrátt fyrir stefnu Alþingis um að ávallt sé unnið að einum göngum ár hvert.

Forgangsröðun jarðganga er mikilvæg til að tryggja öryggi íbúa hér á landi. Í síðustu samgönguáætlun voru efstu þrenn göngin í jarðgangaáætlun öll á Austurlandi; Fjarðarheiðargöng í forgangi og á eftir komu Mjóafjarðargöng og Norðfjarðargöng. Austurland hefur heldur betur fengið sinn skammt af náttúruvá. Skriðuföll á Seyðisfirði árið 2020 fóru ekki fram hjá neinum hér á landi og svo féll snjóflóð á Norðfirði í lok mars á þessu ári. Þar lokuðust samgöngur og íbúar voru fastir í Neskaupstað í þessum hremmingum. Viðbragðsaðilar, björgunarsveitarfólk, leitarhundar og lögreglu- og sjúkraflutningamenn komust ekki á vettvang eftir snjóflóðin þannig að virkja þurfti sjóleiðina með mannafla og vistir fyrir heilt bæjarfélag.

Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessari stöðu og í ofanálag er fjórðungssjúkrahúsið okkar staðsett í Neskaupstað. Þess vegna vil ég beina þessum áhyggjum mínum og ábendingum til umhverfis- og samgöngunefndar að meta aftur mikilvægi þess að Mjóafjarðargöng og Norðfjarðargöng raðist mun ofar á lista yfir jarðgöng en drög að samgönguáætlun gefa til kynna. Líf fólks og aðgengi að fjórðungssjúkrahúsi þarf að vera öruggt allt árið um kring.

Haustþing Sambands sveitarfélaga á Austurlandi lagði nýverið fram ályktun þar sem áhersla er lögð á að hönnun ganga frá Seyðisfirði yfir Mjóafjörð og þaðan til Norðfjarðar fari fram samhliða framkvæmdum við Fjarðarheiðargöng. Ýmsar aðrar ályktanir voru lagðar fram af SSA í samgöngumálum og helst má þar nefna tvennt: Mikilvægi heilsársvegar um Öxi sem er ein af þeim framkvæmdum sem hefur dregist áratugum saman og liggur verulega á að koma þeim framkvæmdum af stað. Ég vil einnig nefna mikilvægi uppbyggingar Suðurfjarðavegar þar sem gríðarlegir og mikilvægir þungaflutningar fara fram og því er mikil þörf á framkvæmdum í þeim vegasamgöngum. Ég gæti haldið áfram að telja upp mikilvægar samgönguframkvæmdir í öllu Norðausturkjördæmi, sem er mitt kjördæmi, en víða um kjördæmið hafa framkvæmdir dregist gríðarlega þrátt fyrir ítrekuð loforð í samgönguáætlun. Áberandi er nú þörfin á brúarframkvæmdum og langar mig sérstaklega að nefna þar mikilvægi nýrrar brúar yfir Skjálfandafljót. Þar er ástandið alvarlegt og mikilvægt að bregðast við með framkvæmdum.

Við erum hér með stefnumótandi skjöl Alþingis. Þar má einnig nefna metnaðarfulla flugstefnu sem fara verður betur eftir því þar koma skýr skilaboð fram um forgangsröðun í uppbyggingu varaflugvalla og þar er faglegt mat að Egilsstaðaflugvöllur eigi að raðast fremst í þeirri mikilvægu uppbyggingu. En þrátt fyrir það er staðan sú að hann virðist síðastur í uppbyggingu varaflugvalla nú í drögum að samgönguáætlun.

Ég hef einnig áhyggjur af fjármögnun jarðganga því útgefið markmið Alþingis er að ávallt sé vinna við ein göng ár hvert. Ég veit að við getum ekki eytt um efni fram. Þess vegna fagna ég veggjöldum, að allir hér á landi, íbúar sem ferðamenn, muni borga fyrir þá miklu uppbyggingu. Þá höfum við meira úr að spila. Einnig eru mikilvægar hugmyndir um jarðgangafélag og samvinnuverkefni. Þessi aðferðafræði mun koma okkur hraðar áfram í alhliða uppbyggingu samgönguinnviða og vonandi getum við haft vinnu við tvenn jarðgöng í einu með þeim hætti.

Ég vil því hvetja hæstv. innviðaráðherra til að setja mikinn kraft í að nota alla þessa aðferðafræði og auka þannig fjármunamyndun svo við getum látið samgönguáætlun verða að veruleika hverju sinni.