154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

204. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir máli fyrir hönd Viðreisnar sem lýtur að tillögu til þingsályktunar um samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki. Þetta er ein af þeim tillögum sem við höfum lagt fram, m.a. til að reyna að ýta undir aðhald í ríkisrekstri og einföldun regluverks sem á endanum hefur síðan m.a. áhrif til aukins hagvaxtar í íslensku samfélagi. OECD hefur m.a. bent á að ef við förum þessa leið sem við erum að tala um með slíkri samkeppnisúttekt og fylgjum henni geti það á endanum haft áhrif til hagvaxtaraukningar upp á 1–1,5%. Það munar um minna, ekki síst fyrir þjóðarbúskapinn þegar staðan er eins og hún er og fjárhagur ríkissjóðs ekki með allra besta móti. Þá skiptir máli að við leitum allra leiða til að gæta aðhalds í ríkisrekstri en líka hugkvæmni og höfum kjark í það að fara í einföldun á regluverki.

Fyrir hönd Viðreisnar er lagt til:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Við vinnuna verði leitað eftir samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina.“ — Við þekkjum hana undir OECD. — „Heimilt verði að skipta úttektinni í áfanga en henni skal að fullu lokið fyrir 1. júní 2025.“

Þessi tillaga hefur áður verið flutt og var síðast flutt á 153. löggjafarþingi. Við fyrri meðferð, og það er rétt að draga það fram, hafa borist jákvæðar umsagnir frá Félagi atvinnurekenda, Neytendasamtökunum, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráði Íslands. Þessi tillaga er nú lögð fram að nýju óbreytt.

Öflugt og gott samkeppnisumhverfi stuðlar að auknum hagvexti og aukinni framleiðni, lægra verði og betri lífskjörum almennt. Rekstrarumhverfi sem auðveldar nýjum fyrirtækjum að takast á við þau sem fyrir eru á markaði og skapar tækifæri til vaxtar fyrirtækja á grundvelli samkeppnishæfni þeirra er nauðsynlegt fyrir neytendur og fyrirtæki, fyrir heimili landsins og fyrirtæki landsins. Það er gríðarlega mikilvægt að við verðum meðvituð um það hvaða þýðingu fyrir pyngju heimilanna í landinu raunveruleg samkeppni hefur.

Fjöldi rannsókna hefur sýnt að atvinnugreinar sem búa við meiri samkeppni uppskera meiri vöxt í framleiðni. Við þekkjum það að þær atvinnugreinar sem vaxa og búa við mikla samkeppni leiða af sér aukna hagsæld fyrir ekki bara fyrirtækin sjálf heldur heimilin í leiðinni. Fyrirtæki sem búa við hátt samkeppnisstig leggja meiri áherslu á framleiðni og að halda aftur af kostnaðarhækkunum en fyrirtæki á fákeppnismörkuðum. Við þekkjum það mjög vel hér á Íslandi að fyrirtæki á fákeppnismörkuðum eru ekkert endilega að halda aftur af kostnaðarhækkunum. Ástæðan er augljós, fyrirtæki á samkeppnismarkaði tekur verðmyndun af markaði og getur því ekki sjálfkrafa velt kostnaðarhækkunum út í verðlag. Þess í stað þarf að bregðast við með hagræðingaraðgerðum. Þau komast ekki upp með annað. Fyrirtæki í samkeppni þurfa að bregðast við með hagræðingaraðgerðum. Hins vegar getur fyrirtæki á fákeppnismarkaði eða í einokun auðveldlega velt slíkum kostnaðarhækkunum yfir á viðskiptavini sína sem eiga ekkert val um að leita annað. Þess vegna erum við í Viðreisn m.a. að draga fram mikilvægi þessarar þingsályktunartillögu, af því að við erum ekki síst búin að upplifa það á síðustu misserum, mánuðum og árum hvað fákeppni á markaði er dýr fyrir neytendur á Íslandi og á endanum fyrir heimilin. Við sjáum að við síðustu verðlagshækkanir hefur verðlag á innlendum matvörum hækkað hlutfallslega mest, þar sem fákeppnin er líka mest. Því er það raunverulegt hagsmunamál fyrir fyrirtækin en ekki síður fyrir heimilin í landinu að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auka samkeppni og hagræðingu í rekstri á markaði, hvort sem er á einkamarkaði eða hjá hinu opinbera.

Þá er vert að draga það fram að óþarflega íþyngjandi regluverk eða rekstrarumhverfi sem ýtir undir fákeppni eða einokun getur reynst skaðlegt fyrir hagvöxt. Allt þetta regluverk, sem m.a. kemur frá þessari ríkisstjórn, er því skaðlegt fyrir hagvöxtinn. Þá sýna rannsóknir að aukin áhersla á samkeppni eflir nýsköpun. Fyrirtæki í virkri samkeppni fjárfesta frekar í rannsóknum og þróun en einokunarfyrirtæki. Einokunarfyrirtæki sjá ekki eins mikla hagsmuni í því af því að þau eru með einokun á markaði. Það er enginn þrýstingur á markaðnum til þess að fara í það að fjárfesta í rannsóknum og ákveðinni þróun. Markvissar aðgerðir stjórnvalda til að örva samkeppni auka því hagvöxt. Mér finnst svo brýnt að nefna, af því að þessi ríkisstjórn lafir enn og lafir væntanlega næstu mánuðina, að við höfum ekki ríkisstjórn í landinu sem hefur það nákvæmlega í huga að leggja til aðgerðir sem örva samkeppni og auka um leið hagvöxt. Með þeim aðgerðum sem hefur verið gripið til er frekar ýtt undir fákeppni eða hún fengið varðstöðu af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

Það má einnig leiða líkur að því að aukin samkeppni hafi jákvæð áhrif á jöfnuð. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Áhrif aukinnar samkeppni eru jákvæð á jöfnuð — fákeppni eða einokun er á kostnað almennings. Þetta eru gömul sannindi og ný þó að ekki vilji allir viðurkenna það. Við sjáum að fákeppni og einokun er á kostnað almennings í formi hærra vöruverðs, við sjáum það raunverulega í dag, en ávinningurinn af þessari fákeppni rennur til fárra, reyndar mjög fárra. Hinir fátækustu verða gjarnan verst úti ef skortur á samkeppni leiðir til hærra vöruverðs eða lakari gæða en ella. Að sama skapi sýna rannsóknir að þó svo að aukin samkeppni leiði oft af sér hagræðingu og fækkun starfa til skemmri tíma séu áhrifin til lengri tíma á atvinnustig ekki augljós. Að sama skapi leiði skortur á samkeppni og lágt framleiðnistig vegna þess oft til minni framleiðslu í hagkerfum og að sama skapi lægra atvinnustigs. Að okkar mati eru miklir hagsmunir fólgnir í því að við leitum allra leiða til að bæta samkeppni í landinu.

Þrátt fyrir ávinning öflugrar samkeppni fyrir fólk og fyrirtæki er hér á landi enn að finna fjöldann allan af samkeppnishindrunum í löggjöf og regluverki sem dregur úr samkeppni og skilvirkni í atvinnurekstri, hamlar nýliðun og leiðir á endanum til hærra verðlags fyrir neytendur. Það er í rauninni sama í hvaða atvinnugrein borið er niður, við getum alls staðar fundið í mismiklum mæli fjölda samkeppnishindrana hér á Íslandi og þetta eru heimatilbúnar reglur. Það er ekki einu sinni þannig að ein af röksemdunum m.a. fyrir því að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið sé að við getum gert þetta allt saman sjálf. Hvernig nýtum við frelsið okkar? Það er miklu frekar að við ýtum undir samkeppnishindranir heldur en að eyða þeim. Þannig notum við frelsið okkar og því dreg ég enn og aftur fram að þær breytingar sem hafa orðið á íslensku umhverfi þegar kemur að samkeppni og atvinnurekstri, þær reglur sem við höfum fengið m.a. í gegnum Evrópska efnahagssvæðið með EES-samningnum, hafa einmitt verið til hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki. Þrýstingurinn hefur komið þaðan og regluverkið og brýnt þannig stjórnvöld hverju sinni til þess að halda vel á málum þegar kemur að samkeppni, en samt ekki nægilega vel. Við þurfum að gera miklu betur.

Ýmsir markaðir hér á landi búa enn við nokkuð óhindraða samkeppni en fjölmargir eru enn bundnir mjög verulegum samkeppnishömlum. Eins og ég sagði áðan er það mismikið en við getum alls staðar fundið einhverjar hömlur. Ekki síst má þar nefna til að mynda orkumarkaðinn, landbúnaðinn, innlenda matvælaframleiðslu af ýmsu tagi, heilbrigðis- og menntakerfi, fjármálamarkaðinn og svo mætti vafalítið áfram telja. Fákeppnin á fjármálamarkaði og tryggingamarkaði blasir við og það er hluti af því að við erum að upplifa og sjá mun hærri — ekki bara út af ákvörðun Seðlabankans — og mjög mikinn fjármálakostnað út frá fjármálafyrirtækjunum vegna þeirrar fákeppni sem hér ríkir. Við eigum að gera allt til þess að koma á meiri samkeppni á þeim markaði sem hefur ekki síst áhrif á pyngju heimilanna í landinu, sem er banka- og tryggingamarkaður.

Skýrt er að verðþróun vöruflokka sem ætla má að nokkuð virk samkeppni ríki um, bæði á innlendri framleiðslu og innflutningi, hafi hækkað minna en vísitala neysluverðs á undanförnum tveimur áratugum. Til samanburðar hefur verðlag á liðum þar sem samkeppni er lítil sem engin hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs. Við erum, eins og ég gat um áðan, að sjá þessar tölur aftur og aftur. Við getum dregið út úr m.a. neysluvísitölu Hagstofunnar hvaða kostnaðarliðir það eru sem hafa hækkað umfram verðlag og það eru oftar en ekki þeir liðir sem eru verndaðir með fákeppnisreglum stjórnvalda. Á árunum 1997–2018 hækkaði t.d. verð á símaþjónustu og fötum og skóm aðeins um 15% samanborið við verð póstþjónustu sem hækkaði um 321%, þjónusta leigubifreiða hækkaði um tæp 260%, þetta er miðað við 2018, og heilbrigðisþjónusta hefur hækkað um tæp 230% á þessu tímabili.

Við flutningsmenn teljum að þetta gefi tilefni til að fram fari heildstæð úttekt á áhrifum laga og reglna á virka samkeppni. Það er mikill hvati fyrir okkur til þess að fara í þessa úttekt, þetta er nú ekki hættulegra en það. Mælum við eindregið með því að forsætisráðherra verði falin yfirumsjón með slíkri úttekt og að leitað verði samstarfs við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD). Úttektina megi að sjálfsögðu vinna í áföngum en henni verði að fullu lokið fyrir 1. júní 2025. Nánari útfærsla verði þá í höndum hæstv. forsætisráðherra.

Þetta er mikið hagsmunamál. Þetta er eitt af því sem við höfum bent á þegar við höfum verið að tala um hagræðingu og sparnað í ríkisrekstri, að þessi mál verði strax tekin föstum tökum því að það getur leitt af sér ekki bara mikinn sparnað úti í atvinnulífinu heldur líka mikla hagræðingu fyrir ríkisvaldið að sjá það að einföldun regluverks geti skilað sér í auknum hagvexti fyrir allt þjóðarbúið í heild. Ég mæli því eindregið með því að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt, samfélaginu öllu til heilla.