154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.

5. mál
[11:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Staðan í dag er óásættanleg og hún er fyrirsjáanleg niðurstaða þeirrar þróunar sem hefur verið hérna frá því að brottrækir Norðmenn komu frá Noregi með fiskeldisbúnaðinn sinn og buðu gull og græna skóga. Skammsýni íslenskra stjórnvalda var að taka því bara. Árið 2018, þegar það var ákveðið með lögum á einum degi að snúa við niðurstöðu umhverfismats — að sjálfsögðu, af því að það þarf að verja þessa hagsmuni — var algerlega fyrirsjáanlegt hvað myndi gerast. Þar var lofað að það yrði eftirlit, að það yrði passað upp á þetta, en svo var það ekki fjármagnað og að sjálfsögðu gerðist ekkert. Þannig að ég kaupi ekki þessi rök um að það eigi einhvern veginn að skrúfa niður. Þau fljúga ekkert.

Staðan sem við erum í er í rauninni skammsýnin sem er í íslenskum stjórnmálum. Það er skammtímagróðinn sem ræður alltaf. Þess vegna tóku stjórnvöld bara opnum örmum á móti þeim sem höfðu verið að menga og höfðu verið reknir burt frá Noregi. Það er einfaldlega þannig. Þeim var sama um umhverfið. Fyrirsjáanlega gerðist það sama hér og gerðist þar. Það vantar langtímahugsun. Það vantar alvörubyggðastefnu sem er búið að vera að hunsa alveg síðan kvótakerfið var sett á. Það hefur markvisst ekki verið horft til þeirra afleiðinga sem ákvarðanir stjórnvalda hafa haft fyrir byggðir landsins.

Vissulega hámarkar fyrirkomulag kvótakerfisins einhvern gróða hér og þar en það býr til samþjöppun. Það vantar að spyrja: Er þessi samþjöppun holl? Jú, hún skilar sér í einhverjum krónum hingað og þangað, kannski fleiri krónum í bókhaldinu heldur en einhverjar aðrar leiðir, en samfélagslegi kostnaðurinn er ekki eitthvað sem er tekið tillit til og hvað þá samfélagslegi kostnaðurinn eða skaðinn sem verður af völdum mengunar af þessum iðnaði. Þessari þingsályktunartillögu þurfa að sjálfsögðu að fylgja mótvægisaðgerðir. Þannig virkar það þegar stjórnvöld eru búin að klúðra eins miklu og hægt er í þessum málum. Þau bjuggu til þessar aðstæður með því að bjóða þessum mengandi iðnaði hingað til landsins í þessum mæli. Þau bjuggu til þær aðstæður, með t.d. þessum lögum, að þessi skaði varð. Þennan skaða þarf að bæta, að sjálfsögðu. En það er ekki bara hægt að taka hvaða fljótlegu skammtímagróðalausn sem er án þess að hugsa um langtímaafleiðingarnar.

Eina leiðin til þess að laga þetta er að segja: Stopp, þetta gengur ekki. Og fara síðan í mótvægisaðgerðir fyrir sveitarfélög sem áttu að sjálfsögðu að fá þær aðgerðir strax í staðinn fyrir þennan mengandi iðnað. Þetta er rosalega einfalt dæmi þegar allt kemur til alls en við erum með flokk í ríkisstjórn sem trúir ekki á neitt svona. Það verður að vera einkaframtakið, meira að segja mengandi einkaframtakið, meira að segja einkaframtakið sem skemmir allt, skemmileggur hingað og þangað, af því að þessi flokkur metur ekki náttúruna og virði náttúrunnar. Það er einfaldlega þannig. Þau segjast gera það, svona í hátíðlegum ræðum hingað og þangað, en það þarf bara að skoða verkin. Þau eru mengandi. Niðurstaðan er skaði. Og það þarf að stoppa þennan skaða.

Hitt sem núverandi stjórnvöld hafa engan áhuga á, einmitt af því að þau eru í einhverjum aðhaldsaðgerðum og vilja minna bákn o.s.frv., er að þau vilja að sjálfsögðu ekki viðurkenna eigin sök í því að hafa valdið þessum skaða sem þau þurfa þá að greiða fyrir. Ég held að þar standi hnífurinn í kúnni þegar allt kemur til alls. Þetta mál fer væntanlega inn í nefnd og verður svæft þar, af því að ef málið kæmi í alvörunni hingað inn í þingsal og ef þingfólk myndi taka ákvörðun á atkvæðagreiðslutakkanum samkvæmt eigin sannfæringu, en ekki samkvæmt sannfæringu þeirra sem ráða í ríkisstjórninni, þá yrði þetta samþykkt. Ég efast ekki um það. En það kæmi mér nákvæmlega ekkert á óvart að ef þetta mál kemst inn í atkvæðagreiðslu muni ríkisstjórnin segja nei samkvæmt fyrirskipun frá þeim formönnum sem ráða. En að sjálfsögðu verður allt gert til þess að koma í veg fyrir málið komi hingað.

Ég hlakka svo sem til að sjá hvaða aðgerðir matvælaráðherra hefur til þess að fara í en ég held að það sé svona svipað og í hvalveiðunum. Það er reynt að setja einhverjar hömlur hingað og þangað með einhverjum reglugerðum og þvíumlíku en það er rosalega auðvelt þegar aðrir komast til valda, sem þeir alla jafna gera, sem eru málsvarar Samtaka atvinnulífsins, að skrúfa það til baka. En ef við setjum þetta í lög hins vegar þá er það dálítið flóknara. Það er einfaldlega siðferðilega afstaðan sem við þurfum að taka, líka í hvalveiðum, að segja nei. Hvernig svo sem pólitískir vindar blása þá gerum við það að grundvallaratriði, lagalegu atriði. Það er erfiðara að breyta lögum. Það er erfiðara að snúa þeirri ákvörðun við. Þannig losum við okkur við geðþóttaákvarðanir einstakra ráðherra sem hafa farið hérna fram og til baka eins og vindurinn. Það er slæmt að búa við geðþóttaákvarðanir en skaðinn af þessum iðnaði, eldi í opnum sjókvíum, er slíkur núna að það er í rauninni ekkert annað í boði. Þannig að ég hvet bara nefndarmenn til þess að vinna samkvæmt eigin samvisku og horfa ekki bara í peninginn. Það þarf að horfa í fleira en það.