154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka aftur andsvarið. Já, ég og hv. þingmaður erum ekki alveg jafn sammála þegar kemur að skólamáltíðum. Ég hef reyndar talað fyrir fríum hafragraut á morgnana og ég man að við skoðuðum það í mínu sveitarfélagi eftir hrun, það var góð reynsla af því víða. En ég segi bara: Skólarnir og kennararnir okkar eru svo mikið kraftaverkafólk, það er svo auðvelt að sjá hvar skortur er og það er svo auðvelt að laga það bara niður á gólfinu þannig að það þarf ekki að rukka alla um máltíð þó að þeir séu ekki skráðir í mat, þannig sé hægt að bregðast við. En það er kannski ekki stærsta málið hérna og tek undir með hv. þingmanni: Frístundir og íþrótta- og tómstundastarf er alveg ofboðslega mikilvægt og maður heyrir að sérfræðingar tala meira um að það eigi að vera hluti af heildinni, hluti af skólakerfinu líka. Ég var í rauninni hálfsjokkeruð þegar ég í kjördæmavikunni var að heimsækja íþróttafélög og þau voru einmitt að benda á það að börn sem kannski búa við einhvers konar fötlun eða hegðunarvandamál eða börn af erlendu bergi brotin sem tala enga íslensku eru kannski að fá mikinn stuðning allan daginn í skólanum, en svo er bara: Jæja, nú er fótboltaæfing, einn þjálfari með 50 krakka, þú bara reddar þessu. Þarna hljótum við auðvitað að þurfa að stíga inn með einhverjum aðgerðum (Forseti hringir.) og styðja íþróttafélögin okkar áfram í að sinna því frábæra starfi sem þau eru að gera og ofboðslega mikilvægu forvarnastarfi.