154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:13]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni andsvarið. Að sjálfsögðu eigum við að útrýma fátækt. Ég kann að hafa mismælt mig vegna þess að ég er á nokkrum stöðum að segja „að útrýma fátækt og draga úr áhrifum fátæktar“, því að við þurfum á sama tíma að draga úr áhrifum fátæktar og áhrifum fátæktar á börn. En að sjálfsögðu eigum við útrýma fátækt. Það er auðvitað markmið okkar allra. Þannig að ef ég hef sagt þetta þá bara biðst ég afsökunar á því að hafa orðað það svona.

Síðan spurði þingmaðurinn um farsældarlögin. Það er verið að innleiða þau. Það er búið að taka skref og það er verið að innleiða þau.

Varðandi greiningarnar var samhengið þar að við erum auðvitað komin með ákveðnar niðurstöður en það er líka dregið fram í skýrslunni að það er sérstök óvissa uppi varðandi t.d. yngsta aldurshópinn, sem sagt hver hans staða er og hverjar ástæðurnar eru. Af því að námslánin telja ekki inn í þá hefur það áhrif. Ég dró fram verkefni þar sem verið er að greina sérstaklega hóp óvirkra ungmenna. Hann þarf að greina. Svo var aftur vísað sérstaklega til innflytjenda og ég dró það líka fram að mér finnst mikilvægt að við aðskiljum í greiningunum hópinn sem er hér, fjölskyldur sem eru sestar að hér með börn og hópinn sem er á ferðinni, af því að ég held að það skipti mjög miklu máli. Greiningu lýkur aldrei því að þó að við náum að útrýma fátækt fer verkefnið ekkert frá okkur. Það er viðvarandi. Það er alltaf viðvarandi verkefni í öllum samfélögum að vinna að jafnrétti og jöfnuði. Það fer aldrei frá okkur, við klárum aldrei verkefnin en vonandi náum við þeim árangri að verkefnið sé bara að viðhalda árangri sem við náum. Verkefnið fer samt ekki frá okkur. Þetta er viðvarandi verkefni.