154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:17]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni andsvarið. Tómstundir eru mjög mikilvægar og þátttaka barna í tómstundum er mjög mikilvæg og við þurfum að tryggja að það geti öll börn tekið þátt í tómstundum. Vandinn núna er í einhverjum tilfellum fjárhagslegur en ekki öllum. Hluti af vandanum er að við þurfum að kynna betur margt af því sem er í boði. Það er mjög margt sem við þurfum að huga að, það er kannski það sem ég er að segja, en það er mjög mikilvægt að tryggja að öll börn eigi þess kost að taka þátt í tómstundum. Ég hef ekkert eina lausn. Tómstundir eins og starfsemi íþróttafélaga, leikfélaga og margs þess sem börnin okkar stunda er borið uppi af sjálfboðaliðum meðan annað, eins og félagsstarf á vegum skóla og félagsmiðstöðva, er kostað af sveitarfélögunum. Þannig að við höfum þarna mjög fjölþætt verkefni. Svo er það tónlistarnám og ýmislegt fleira. En markmið okkar hlýtur að vera það að öll börn geti tekið þátt í tómstundum. Ég held að við gætum þurft að fara ólíkar leiðir. Sumir þessir styrkir, eins og þeir sem ég var að tala um núna, eru ekki beinlínis til einstaklinganna, þeir eru til félagasamtaka svo að félagasamtökin geti boðið öllum þjónustu. Það er kannski oft leiðin sem er heppilegra að fara heldur en að vera að binda það við einstaklinga.