154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:14]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að málefni ferðaþjónustunnar séu tekin upp og rædd hér í þingsal reglulega, enda er ferðaþjónustan ein stærsta atvinnugrein landsins og mikilvægur liður í hagvexti landsins. Ferðaþjónustan ein og sér skapar fjölda starfa hér á landi en um 36.000 manns vinna í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar. Hlutverk stjórnvalda er að skapa umgjörð og aðstæður fyrir ferðaþjónustuna til að vaxa og dafna á sama tíma og náttúruvernd og samlyndi við íbúa landsins sé tryggt. Í því samhengi tel ég að það séu afar góð tækifæri fólgin í því að efla hlutverk markaðsstofanna í hverjum landshluta fyrir sig.

Í heimsfaraldri fóru stjórnvöld í uppbyggingu á innviðum í kringum vinsæla áfangastaði. Við sjáum nú hversu miklu máli það skipti, enda hefur Ísland orðið gríðarlega vinsælt eftir að losnaði um ferðatakmarkanir og íbúar heimsins fóru aftur á stjá. Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2023 námu 160 milljörðum kr. samanborið við 113 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2022. Alls eru tekjur af erlendum ferðamönnum á 12 mánaða tímabili 544 milljarðar. Þessar tekjur eru svo sannarlega mikilvægar fyrir okkur sem þjóð og það skiptir máli að við stöndum vel að málum sem snúa að ferðaþjónustunni. Því fagna ég því að hæstv. ferðamálaráðherra sé með í bígerð aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030. Byggist hún á grundvelli uppfærðrar stefnu í ferðaþjónustu sem segir að ferðaþjónusta eigi að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á víðtækum grunni. Hagaðilar hafa komið að borðinu við þessa vinnu og víðtækt samráð átt sér stað. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir slíka nálgun á verkefninu því að við eigum að hafa samráð og öflugt samtal við þá sem starfa í greininni þegar við setjum stefnur og áætlanir því að þar liggur þekkingin á því hvað þarf til og hvar við þurfum að gera betur. Framtíðin er björt í ferðaþjónustugeiranum hér á landi og við þurfum bæði að styðja vel við og vera vakandi fyrir því hvar þarfirnar liggja.