154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og allar ábendingarnar sem hafa komið hérna fram. Ég held að ráðherra fari vel nestaður inn í ráðuneytið aftur eftir þessa umræðu. Það eru nokkur atriði sem hafa komið fram, það er ekki búið að meta þessi þolmörk enn þá. Það er vissulega rétt eins og var talað um í umræðunni að það er dýnamískt. Það er hægt að fara í ákveðna uppbyggingu á hverjum ferðamannastað fyrir sig til að auka þolmörk, klósett voru vandamál hérna um tíma. Ef við rekjum okkur aðeins til baka þá hófst þetta í kringum 2012, 2013 þegar var farið í markaðsátak eftir hrunið, Inspired by Iceland, eða Innblásin af Íslandi, sem ég held að megi alveg segja að hafi heppnast gríðarlega vel. Kannski aðeins of vel þegar allt kom til alls af því að við vorum alls ekki undirbúin undir allan þann fjölda sem fannst þetta mjög aðlaðandi hugmynd og greip tækifærið og kom til Íslands. Við urðum mjög hissa á því hversu margir komu, ekki það að að sjálfsögðu er Ísland fallegt land o.s.frv. en þetta var mikill fjöldi. Aukaviðbrögð eru náttúrlega innkoma samfélagsmiðla, t.d. Instagram, og Bieber-áhrifin hérna þar sem hann tók mynd af sér í Fjaðrárgljúfrum og Jökulsárlóni og núna vilja allir fara þangað og taka mynd af sér á nákvæmlega sama stað, á stað sem má alls ekki fara á. Þannig að það eru áhugaverð atriði sem við höfum litla stjórn á. En markaðsátakið stjórnar að miklu leyti einmitt áhuga fólks á að koma hingað og það eru mörg atriði sem er hægt að grípa til. Það er hægt að stilla markaðsátaki í hóf og þar með væntingum og áhuga fólks sem leitar annað í staðinn, alla vega á meðan við höfum ekki bolmagnið til að taka á móti því. Nægt er í rauninni flæði ferðamanna (Forseti hringir.) efnahagslega séð, ávinningurinn af ferðaþjónustunni er mjög mikill eins og er og þá spyr maður bara: Hversu mörgum getum við tekið á móti?