154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:04]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þingmanns um mikilvægi þess að nefndin fái allar nýjustu upplýsingar um þá þróun sem er að verða. Við óskum þess öll og vonum, held ég, að þörfin fyrir það að veita fólki alþjóðlega vernd minnki, og þar af leiðandi þörf fyrir búsetuúrræði, þó að ekki sé mjög friðvænlegt í heiminum í augnablikinu.

Staðreyndin varðandi þörfina í dag er hins vegar sú að þau búsetuúrræði sem Vinnumálastofnun vinnur með eru mörg hver óhentug. Það getur vel verið að það að þurfa að fara í sífellt verri úrræði meðan þörfin er fyrir hendi geti einfaldlega verið skárra eða betra í forgangsröðuninni heldur en að leita eftir svona leiðum.

Svo vil ég nefna að síðar í vetur mun ég væntanlega koma með frumvarp þar sem við munum heimila óleyfða búsetu tímabundið, þar sem við gerum kröfur um brunavarnir og hollustuhætti (Forseti hringir.) til að taka á málum sem eru eftirstöðvar brunans á Bræðraborgarstíg og brunans í Hafnarfirði, sem eru kannski sambærilegar aðstæður fólks.