154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Alþjóðaflugið hefur gríðarleg áhrif á samkeppnishæfni landsins á alþjóðavettvangi. Árlega koma um tvær milljónir ferðamanna, sem eflir atvinnulíf og verðmætasköpun um allt land. Í flugstefnu Íslands frá árinu 2019 er Egilsstaðaflugvöllur skilgreindur í algjörum forgangi í uppbyggingu varaflugvalla hér á landi sem á að tryggja öryggi í alþjóðaflugi. Þrátt fyrir þessi faglegu og góðu rök hefur dregist mjög að huga að þeirri uppbyggingu. Í umsögn Icelandair við gerð flugstefnunnar kemur skýrt fram að Egilsstaðaflugvöllur sé besti kosturinn með tilliti til uppbyggingar varaflugvallar, fjalllendi sé langt í burtu, aðkoman afar hentug með tilliti til vinds, aðflugs og brottfluga. Icelandair lagði einnig áherslu á að hefja ætti sem fyrst uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli vegna lægsta kostnaðar og stysta framkvæmdatímans.

Í samgönguáætlun fyrir árið 2024–2038, sem hefur nú verið vísað til umhverfis- og samgöngunefndar, virðist ekki eiga að fara í neinar umfangsmiklar framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll fyrr en á árunum 2029–2033 og framkvæmdum við akbraut og flughlað mun ljúka 2038. Ein ástæða þess að ég dreg þessar staðreyndir hér fram eru áhyggjur sem mér hafa borist frá flugstjórum Icelandair. Með leyfi forseta, langar mig til að vitna í hluta af þeim skrifum til mín:

„Við flugmenn höfum kallað eftir þessu hvað eftir annað enda hefur skapast ófremdarástand þegar Keflavíkurflugvöllur hefur lokast öllum að óvörum á meðan við sitjum sveittir í biðflugi fyrir austan vegna þess að flugbrautin býður ekki upp á beinan akstur út af braut eftir lendingu. Uppbygging flugvalla okkar fyrir utan Keflavík er algerlega háð starfsemi Alþingis, fjárlögum og samgönguáætlun. Flestir þingmenn sýna fluginu og flugöryggismálum því miður óskiljanlegt áhugaleysi, en þingmenn verða að hlusta á okkur sem við þetta störfum og taka okkur alvarlega. Við höfum sloppið með skrekkinn vegna frumstæðra innviða í landinu.“

Þessi orð sýna alvarlega stöðu varðandi öryggi alþjóðaflugs hér úr landi. Ég vil því hvetja umhverfis- og samgöngunefnd að endurskoða forgangsröðun og fjármagn til uppbyggingar varaflugvalla hér á landi.