154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra og fráfarandi fjármálaráðherra hafa bæði haldið því fram að það hafi komið þeim verulega á óvart að Bankasýsla ríkisins væri ekki sjálfstæð stofnun heldur heyrði hún undir fjármálaráðherra, þau hafi bæði fengið lögfræðiráðgjöf um annað og sagði núverandi utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, í Silfrinu í gær, með leyfi forseta:

„Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar sagði hreinlega að þetta væri sjálfstæð stofnun þótt umboðsmaður komist að annarri niðurstöðu.“

Nú finn ég mig knúna til að leiðrétta þessar rangfærslur ráðherrans. Í nefndaráliti meiri hlutans sem gerði frumvarp um Bankasýslu ríkisins að lögum kemur aftur á móti fram:

„Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sérstök ríkisstofnun sem beri heitið Bankasýsla ríkisins og heyrir hún undir fjármálaráðherra.“

Þetta verður ekki mikið skýrara. Sambærilegt orðalag er notað í lögunum sjálfum sem við hljótum að vera sammála um að sé það sem gildir. En í nefndarálitinu stendur enn fremur, með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi á fundum sínum það álitaefni hvort koma ætti verkefnum Bankasýslu fyrir í hlutafélagi eða stofnun. Meiri hlutinn telur að stofnun eigi betur við þegar litið er til mikilvægis þess að stofnanir lúti almennum reglum ríkisrekstrar, hafi skilgreindan ramma og skýra ábyrgðarkeðju, þ.e. ráðherra ber endanlega ábyrgð gagnvart almenningi. Þá bendir meiri hlutinn á að stofnanir lúta reglum upplýsinga- og stjórnsýslulaga.“

Í hvað var ráðherra að vísa? Jú, umsögn efnahags- og skattanefndar um frumvarpið sem finna má í viðhengi við nefndarálit meiri hluta nefndarinnar sem fór með málið.

Forseti. Við hljótum að vera sammála um að lög ganga framar nefndarálitum og nefndarálit ganga framar umsögnum í túlkun á lögum. Það er því mjög forvitnilegt að heyra um fjölda lögfræðiálita sem styðja þessa bjöguðu niðurstöðu, að Bankasýslan heyri ekki undir ábyrgð ráðherra. Ég tel mikilvægt að upplýsa hvernig ráðherrarnir fengu svona vonda ráðgjöf og ég mun því óska eftir afriti af þessum álitum á viðeigandi vettvangi innan þingsins.