154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í dag, þann 17. október, er alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt. Örbirgð, að geta ekki mætt grunnþörfunum sínum eða algjört allsleysi er skilgreining á fátækt. Fjárhagsleg fátækt, menntaskortur, næringarskortur, heilsubrestur, fæði, húsnæði, klæði vantar vegna fátæktar. Skortur á heilbrigðisþjónustu, hollum mat, mannsæmandi húsnæði. Börn fá ekki sjálfsagða heilbrigðisþjónustu læknis, tannlæknis vegna kostnaðar sem foreldrar þeirra ráða ekki við. Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að lenda eða hreinlega festast í fátæktargildru þegar þau verða fullorðin. Samfélagslegur kostnaður vegna fátæktar er mikill í formi heilsubrests og afbrotatíðni. Barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar, öryrkjar með börn, ungir öryrkjar, öryrkjar, aldrað fólk, láglaunafólk býr við þá ömurlegu staðreynd að vera í nær 50.000 manna hópi þeirra á Íslandi sem búa við fátækt.

Fátækt hefur slæm áhrif á ævilíkur fólks, þá sérstaklega ævilíkur kvenna. Í Bretlandi var gerð könnun 2001–2016 en þar kemur fram að dauðsföll meðal Breta sem búa við fátækt eru mörg og þá sérstaklega meðal kvenna. Munurinn á milli kvenna sem lifa í fátækt og þeirra sem lifa við velmegun eru nær tíu ár og bilið eykst. Konur sem lifa við fátækt lifa að meðaltali tíu árum skemur en þær sem eru efnameiri. Haldið þið að þetta sé eitthvað öðruvísi hér á landi? Nei. Heilsutjón vegna lélegs fæðis eða fæðuskorts og andleg og líkamleg óþægindi vegna þess að þunglyndi og vonleysi er að valda af því sama hér á landi og fátækt fólk lifir nær tug ára skemur.

Já, í dag er 17. október, alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt. Örvæntingin er orðin mikil hjá þeim verst settu í íslensku samfélagi og fer vaxandi með aukinni fátækt. Þá hefur þeim sem leita til hjálparsamtaka fjölgað um tugi prósenta á þessu ári. Fátækt fólk er sá hópur sem hefur ekki svigrúm til að mæta stórhækkuðum og óvæntum kostnaði sem fylgir miklum verðhækkunum vegna verðbólgu. Hvað er ríkisstjórnin að gera í tilefni dagsins? Ekkert. Enginn frá ríkisstjórn hefur enn sem komið er rætt um fátækt hér (Forseti hringir.) í tilefni dagsins. Segir það ekki meira en öll önnur orð? Ömurlegt.