154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Slysasleppingar í sjókvíaeldi.

[14:30]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það er óneitanlega sorglegt að sjá norska kafara með skutulbyssur að veiða eldislaxa í íslenskum ám. En þetta er því miður staðan eftir að um 3.500 eldislaxar sluppu úr kví Patreksfirði. Það er verulegt umhugsunarefni að sjá hversu víða eldisfiskarnir fara og það stangast illa á við fullyrðingar hagsmunaaðila í greininni um öryggi hennar og umhverfisvernd. Þetta mál og verklag fyrirtækisins er til rannsóknar hjá þar til bærum yfirvöldum en það hefur þó komið fram í fréttum að fyrirtækið hafi ekki viðhaft nauðsynlega ljósastýringu í kvínni til að koma í veg fyrir erfðablöndun. Afleiðingin er sú að nærri 200 laxar úr eldi hafa fundist í 42 ám, samkvæmt fréttum í fyrradag. Enn á eftir að greina fjölda laxa sem koma að líkindum úr þessu sama umhverfisslysi í Patreksfirði og auðvitað er ekki hægt að kalla þetta neitt annað heldur en umhverfisslys og við hljótum að gera þá kröfu að brugðist verði við af festu.

Það hefur verið boðað að efla eigi eftirlit og er það vel, einnig að koma upp hvötum til fjárfestinga í öruggari búnaði og að vanræksla í eldi hafi alvarlegri afleiðingar en nú er, jafnvel svo að fyrirtæki missi leyfi til eldis í verstu tilvikum. Þegar viðkvæm náttúra Íslands er í húfi, í þessu tilviki einstakir laxastofnar á heimsvísu, þá verða eldisfyrirtækin að sættast á miklu öflugra eftirlit, öflugri búnað og tækni til að koma í veg fyrir slysin. Sorglegast er þó að allt þetta var mjög fyrirsjáanlegt. Þau eru nefnilega nánast orðin fleyg orðin sem birtust í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir fáeinum mánuðum, með leyfi forseta:

„Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarksávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda.“

— Án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda.

Stjórnsýsla og eftirlit hefur ekki fylgt eftir örum vexti greinarinnar og það er mikið undir í þessari umræðu: Viðkvæmt lífríkið en einnig tugmilljarða gjaldeyristekjur og fjöldi starfa í viðkvæmum byggðum. Stjórnvöld og greinin sjálf verða að bregðast við og boðuð áform matvælaráðherra eru skref í rétta átt.