154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Slysasleppingar í sjókvíaeldi.

[14:35]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við höfum byggt upp örugg viðbrögð við alls kyns atburðum, hvort sem um er að ræða mengunarslys, smitsjúkdóma eða náttúruvá. Öll þessi viðbragðskerfi byggja á því að lágmarka mögulegan skaða og áhrif til framtíðar. Líkt og með aðra atburði þarf að vera til öruggt viðbragð og eftirlit með sjókvíaeldi sem virkjað er strax og slepping verður. En svo að það megi verða þarf eftirlit að færast nær sjókvíaeldinu, bæði til að flýta viðbragði og ekki síst til að byggja upp þekkingu á þeim svæðum þar sem eldið er stundað. Því er mikilvægi eftirlits á þeim stöðum þar sem sjókvíaeldi er afar veigamikið. Það má líkja því við ef Ísfirðingar yrðu uppvísir að slæmri umferðarmenningu, keyrðu ítrekað yfir hámarkshraða eða undir áhrifum áfengis. Þá yrði að sjálfsögðu ákall eftir auknu eftirliti lögreglu en stjórnvöld myndu bregðast við með þeim hætti að ráða fleiri lögreglumenn á Selfossi. Hvaða áhrif myndi það hafa á umferðarmenningu á Ísafirði? Þá er það ekki fyrirtækjunum í hag sem stunda sjókvíaeldi að eftirlit sé slakt. Það tjón sem hefur orðið vegna slysasleppinga haustsins er eitthvað sem öll eldisfyrirtæki hefðu viljað komast hjá í fremstu lög.

Hæstv. matvælaráðherra hefur lagt fram tillögu um stefnu í uppbyggingu og umgjörð lagareldis, stefnu til ársins 2040, og er hún komin í samráðsgátt. Tillagan hefur það að markmiði að skapa greininni skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Þegar horft er til sjókvíaeldis segir í tillögunni að áskoranirnar séu vissulega til staðar og til þess að greinin geti áfram verið mikilvæg stoð í efnahag landsins verði áfram að vinna að því að mæta þeim áskorunum með festu. Það er bæði verkefni þeirra fyrirtækja sem stunda greinina, samfélaganna þar sem greinin er stunduð og stjórnvalda sem halda utan um eftirlit og lagaumgjörð. Það er raunverulegur möguleiki með því að hafa vísindin í forgrunni sem byggja og lágmarka umhverfisáhrif greinarinnar. Þannig byggjum við upp sameiginlegan ábata með nýtingu auðlinda til verðmætasköpunar.