154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Slysasleppingar í sjókvíaeldi.

[14:39]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að byrja á að vitna í skýrslu sem kom út í Noregi fyrir ekki mjög löngu. Þar tóku vísindamenn frá sjö stofnunum og háskólum sig saman, rannsóknarefnið var auðvitað áhrif sjókvíaeldis og hver var niðurstaðan? Jú, hún var sú að erfðablöndunin væri umtalsverð og hætta steðjaði að villtum laxastofnum þar. Hvað kom næst í röðinni? Laxalúsin. Mikil hætta stafar líka af henni og nú er verið að eitra fyrir laxalúsinni hér um alla firði. Nú veit ég ekki hvaða rannsóknir hv. þm. Teitur Björn Einarsson hefur verið að lesa en ég held það væri ráð að hv. þingmenn í atvinnuveganefnd, jafnvel með umhverfis- og samgöngunefnd, tækju sig saman um að lesa nýjustu vísindagreinar um áhrif sjókvíaeldis á villta laxastofna í Norður-Atlantshafi. Við verðum að komast á sama stað í upplýsingu og þekkingu um þessi mikilvægu mál.

Hitt sem ég ætla að reyna að koma að í þessari örstuttu ræðu er að benda á mikilvægi opinbers eftirlits. Ég vil aldrei aftur heyra þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins eða annarra flokka hér í þessu púlti tala um eftirlitsiðnaðinn. Við þurfum vel fjármagnað og faglegt eftirlit með allri atvinnustarfsemi, þar á meðal sjókvíaeldi eins og reynslan sannar og sýnir. Þess vegna vil ég fagna því að það eigi að setja meira fé í það hjá Matvælastofnun og Hafró. Vonum að það dugi um hríð, við erum að tala um næstu tvö ár hafi ég skilið hæstv. ráðherra rétt.

Að lokum langar mig að nota síðustu tíu sekúndurnar til að spyrja hæstv. ráðherra hvaða rannsóknir séu í gangi eða hvaða ráðstafanir sé verið að gera til að hætta notkun erlendra stofna í sjókvíaeldi.