154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[15:02]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Forseti. Síðustu helgi var haldinn sérstakur blaðamannafundur til að tilkynna að ríkisstjórn Íslands væri ekki sprungin, þau vilja halda áfram vegna stórra áskoranna og fjölmargra verkefna, eins og hæstv. ráðherrar orðuðu það. En hvaða verkefna? Síðasta löggjafarþing var eitt það verkminnsta í manna minnum. Málin skiluðu sér seint og illa og á endanum náðist sátt milli stjórnarflokkanna um fátt annað en að slátra málunum þeirra. Og nú er komin upp aftur þessi staða að ríkisstjórnin hefur varla nein mál til að mæla fyrir. Í dag eru bara þingmannamál á dagskrá, mál sem allir vita að verða ekki að lögum og verkefnastaðan er svo fátækleg hjá ríkisstjórninni að það hefur verið biðlað sérstaklega til stjórnarandstöðunnar að halda hér uppi dagskránni með þingmannamálum sem munu svo drepast inni í nefndum.

Hæstv. forseti. Hvað er eiginlega að frétta? Er kannski tímabært að hæstv. forseti banki aðeins í ríkisstjórnina og vekji hana þannig að hún geti farið að koma sér að verki?