154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[17:36]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði, mál 313 á þskj. 317. Ásamt þeim sem hér stendur þá eru meðflutningsmenn allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að undanskildum ráðherra og hæstv. forseta. Málið var áður flutt á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki brautargengi og er nú endurflutt lítillega breytt.

74. gr. stjórnarskrárinnar tryggir öllum félagafrelsi. Við eigum öll rétt til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talið stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um það leyfi. Skýrt er tekið fram í þessari grein stjórnarskrárinnar að engan megi skylda til aðildar að félagi en þó megi með lögum kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Þrátt fyrir þessi skýru ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar er félagafrelsi því miður ekki virt á íslenskum vinnumarkaði. Almenn löggjöf takmarkar rétt manna til að velja sér félag eða standa utan félags og þar er gengið lengra heldur en í nágrannalöndum.

Þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var lögfestur á árinu 1995 var mikilvægt nýmæli samþykkti í 2. mgr. 74. gr. Þar er kveðið á um rétt manna til að standa utan félags. Litlar eða engar breytingar hafa hins vegar orðið á vinnulöggjöfinni frá þessum tíma til að tryggja að þetta ákvæði nái fram að ganga og úrskurðir dómstóla virðast ekki hafa tekið mið af þessum breytingum. Vinnumarkaðslöggjöfin er í mínum huga barn síns tíma og í mörgu úrelt. Hún þrengir að félagafrelsi. Því er illa hægt að halda því fram að launafólk hafi raunverulegt frelsi til að ákveða hvort það standi utan stéttarfélags eða ekki. Þrátt fyrir að launamanni sé heimilt, samkvæmt orðanna hljóðan, að standa utan stéttarfélags hefur lagaumgjörðin með öðrum hætti í raun orðið til þess að valfrelsið er að nafninu til en ekki á borði. Dæmi um þetta eru lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna þar sem kveðið er á um skyldu ófélagsbundinna starfsmanna til greiðslu iðgjalds stéttarfélags sem hann ætti, eins og þar segir, að tilheyra. Það er rétt í þessu sambandi að benda á að á almennum vinnumarkaði gildir ekki þessi greiðsluskylda. Það er ljóst í mínum huga og flutningsmanna að það verður að breyta lögum þannig að launafólk utan stéttarfélaga sé ekki þvingað til að greiða iðgjald til félags sem það á enga aðild að líkt og gerist á opinberum vinnumarkaði, eins og ég sagði áðan.

Markmið frumvarpsins er að tryggja rétt launamanna til að velja sér stéttarfélag og leggja bann við forgangsréttarákvæðum í kjarasamningum, vernda rétt launamanna til að standa utan verkfalla stéttarfélaga sem þeir tilheyra ekki og afnema og koma í veg fyrir greiðsluskyldu ófélagsbundinna launamanna sem þar sem þess er krafist í lögum. Þar er ég aftur að vitna til opinberra starfsmanna.

Í raun má segja að 1. og 2. gr. frumvarpsins súmmeri þetta ágætlega upp þar sem segir að menn skuli hafa rétt til að stofna og ganga í þau stéttarfélög sem þeir kjósa og eru einungis háðir reglum hlutaðeiganda félags um inngöngu í það. Óheimilt er að draga félagsgjöld eða önnur gjöld af launum starfsmanns eða skrá hann eða félagsmann í stéttarfélag nema með skýru og ótvíræðu samþykki hans. Nái þetta frumvarp fram að ganga er óheimilt að skylda mann til að ganga í tiltekið stéttarfélag. Þá er vinnuveitanda óheimilt að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á grundvelli félagsaðildar hans. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun og námsleyfi. Þá verður jafnframt óheimilt að byggja ákvörðun um uppsögn, vinnuaðstæður eða önnur starfskjör launamanns á félagsaðild hans. Vinnuveitanda verður óheimilt að mismuna starfsmönnum sínum vegna félagsaðildar í tengslum við laun og önnur kjör enda sinni þeir sömu eða jafn verðmætum störfum.

Frú forseti. Nái frumvarpið fram að ganga er Alþingi að tryggja að íslenskt launafólk búi við sömu réttindi og launafólk í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Frumvarpið er nú ekki róttækara en það. Sem sagt, það er verið að tryggja íslensku launafólki sömu réttindi og launafólk hefur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, svo dæmi sé nefnt. Þrátt fyrir að félagafrelsið njóti í raun ríkari verndar samkvæmt íslensku stjórnarskránni en gengur og gerist í mörgum öðrum löndum þá hefur almenn löggjöf gert það að verkum að réttur manna til að velja sér félag eða standa utan félags er mun takmarkaðri en í öðrum löndum. Stjórnarskráin tryggir eða á að tryggja þessi réttindi í orði en laga- og dómaframkvæmd hefur orðið önnur og kemur í veg fyrir að þessi réttindi séu á borði. Ólíkt öðrum vestrænum ríkjum hefur vinnumarkaðslöggjöfin hér á landi, eins og ég sagði áðan, ekki tekið fullnægjandi breytingum til að tryggja þetta félagafrelsi á íslenskum vinnumarkaði. Ég ítreka það að allir helstu lagabálkar vinnumarkaðslöggjafarinnar urðu að lögum áður en mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var lögfestur hér árið 1995. Síðan hafa litlar breytingar orðið á þessum 27 árum eða svo og túlkun dómstóla virðist hafa verið óbreytt þrátt fyrir þau nýmæli sem tekin voru upp í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995. Það er þess vegna sem ég hef haldið því fram að gildandi vinnumarkaðslöggjöf gangi gegn þeim stjórnarskrárvörðu réttindum sem öllum Íslendingum eiga að vera tryggð, ekki síst íslensku launafólki á vinnumarkaði.

Á Íslandi er nokkuð sem kallast forgangsréttarákvæði í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Slík ákvæði ganga enn og aftur gegn félagafrelsi launafólks, enda má leggja þau að jöfnu við skylduaðild að stéttarfélagi þar sem fólk er í raun útilokað frá tilteknum störfum gangi það ekki í viðkomandi stéttarfélag sem hefur forgang samkvæmt kjarasamningum sem eru varðir með lögum. Nánast öll vestræn ríki sem mér er kunnugt um hafa bannað slíkt ákvæði, einmitt með vísan til félagafrelsis. Vandinn við forgangsréttarákvæði er sá að þegar kemur að því að ráða starfsmann skal sá sem er félagi í stéttarfélagi njóta forgangs. Þegar þær aðstæður kunna að skapast að segja þurfi upp starfsmanni eða starfsmönnum þá skal fyrst segja upp þeim sem er ófélagsbundinn en síðan þeim sem er félagi í verkalýðsfélagi. Þetta þýðir auðvitað í raun og það hljóta allir að sjá að til að verja rétt sinn er launamanni nauðugur sá kostur að ganga í verkalýðsfélag bara til að verja starfið, vegna þess að vinnuveitanda, launagreiðandanum, er ekki heimilt að beita mati við það og fara eftir hæfni og dugnaði starfsmanns þegar kemur að hugsanlegri uppsögn. Réttarstaða þess sem ákveður af ýmsum ástæðum að standa utan stéttarfélags, m.a. vegna þess að hann kann að vera ósáttur við það hvernig stéttarfélagið vinnur, kann að vera ósáttur við þá pólitík sem rekin er innan stéttarfélagsins, kann að vera sannfærður um að stefna forystu viðkomandi stéttarfélags gangi gegn hagsmunum hans, er þannig að honum er engu að síður sá kostur einn nauðugur, til að verja starf sitt og standa jafnfætis öðrum, að ganga til liðs við félagið.

Takmarkanir á rétti borgaranna til að velja sér stéttarfélag eru ekki þess eðlis að almannahagsmunir eða réttindi annarra krefjist þess að skylda einstaklinga eða banna þeim að ganga í tiltekið stéttarfélag. Það er því nauðsynlegt að mati okkar flutningsmanna að tryggja launamönnum frelsi til að velja sér það stéttarfélag sem þeir treysta til að gæta hagsmuna sinna og vilja veita fjárhagslegan stuðning með greiðslu iðgjalds eða félagsgjalds. Svo er auðvitað óhjákvæmilegt að horfa til hins pólitíska eðlis stéttarfélaga sem birtist m.a. í kröfugerðum þeirra til stjórnvalda sem fela oft í sér kröfur um lagabreytingar eða pólitíska stefnumótun. Það kann að vera á rökum reist og vera eðlilegar kröfur en réttur einstaklingsins til að standa utan stéttarfélags er að þessu leyti samofinn skoðana- og tjáningarfrelsinu sem varið er í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til að fara eftir.

Þegar þetta frumvarp kom fyrst fram á liðnum þingvetri var það gagnrýnt m.a. út frá því að það myndi veikja verkalýðshreyfinguna og því var jafnvel haldið fram að því væri stefnt til höfuðs verkalýðshreyfingunni. Ég hafna öllum slíkum staðhæfingum vegna þess að ég er sannfærður um að þvert á móti séum við að styrkja verkalýðshreyfinguna vegna þess að verkalýðsfélög munu hafa alveg sérstaka hagsmuni af því að sannfæra launafólk um að hagsmunum þess sé best borgið með því að ganga til liðs við viðkomandi stéttarfélög. Þau muni leggja sig í líma við að gæta hagsmuna viðkomandi. Forysta verkalýðshreyfingarinnar mun skynja það að íslenskt launafólk fær meiri áhuga á réttindum sínum og kjörum og meiri áhuga á starfsemi verkalýðshreyfingarinnar en nú er og hættir að vera jafn afskiptalaust og mér hefur stundum virst vera og birtist m.a. í lélegri þátttöku þegar kemur að því að velja sér forystu. Viðkomandi launafólk mun taka sjálfstæða ákvörðun um að tilheyra félaginu og þegar það gerir það þá er ég viss um að það mun líta svo á að því beri líka skylda til þess að taka þátt í að velja forystu og móta stefnu og störf viðkomandi félags.

Ég ætla líka að minna á að Evrópunefnd um félagsleg réttindi hefur ítrekað bent á að forgangsréttarákvæði eins og þau eru viðhöfð hér á landi gangi gegn mannréttindasáttmála Evrópu.

Frú forseti. Ég lít þannig á að íslenska ríkinu, íslenska löggjafanum, beri svo rík skylda til að gæta að mannréttindum borgaranna að ekki verði hjá því komist að grípa til aðgerða þegar löggjöf gengur gegn þeim réttindum sem þeim eru tryggð samkvæmt stjórnarskrá, grípa til aðgerða með lagabreytingum eins og hér er lagt til. Þrátt fyrir að bæði jákvætt og neikvætt félagafrelsi sé kirfilega tryggt í stjórnarskránni, eins og ég hef vikið hér að margoft, hefur vinnumarkaðslöggjöfin ekki endurspeglað það frelsi. Markmið þessa frumvarps og okkar sem að því stöndum er að tryggja íslensku launafólki vernd, tryggja því frelsi, standa vörð um félagafrelsi íslensks launafólks.

Ég vil að lokum líka taka fram að hér er lagt til að lögin taki til allra stéttarfélaga og vinnuveitenda á íslenskum vinnumarkaði, almennum og hinum opinbera. Á hinn bóginn kann að vera nauðsynlegt að ráðast í sérstaka lagasetningu og ég hygg að ég gæti jafnvel tekið sterkar til orðs og sagt: Það er nauðsynlegt að ráðast í sérstaka lagasetningu á þeim sviðum þar sem félagafrelsi er heldur ekki tryggt. Þetta á t.d. við um skylduaðild að lífeyrissjóðum, þ.e. þegar íslenskt launafólk er svipt þeim rétti að velja sér lífeyrissjóð sem ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt launafólk. Eitt er að skylda menn að taka þátt í samtryggingarkerfi lífeyrissjóða og ég stend vörð um þá skyldu, en það er annað að skylda viðkomandi að greiða í ákveðinn lífeyrissjóð og svipta hann frelsinu til að velja sér lífeyrissjóð sem uppfyllir ákveðnar lagalegar skyldur.

Það má líka benda á skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands, sem a.m.k. einhverjir þingmenn hér þekkja vegna menntunar sinnar og starfa. Ég vitnaði hér í upphafi til þess að í 74. gr. stjórnarskrárinnar sé sagt að það megi þó skylda menn til aðildar að ákveðnu félagi ef almannahagsmunir krefjast en þau rök eiga ekki við þegar kemur að skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands, a.m.k. hef ég þrátt fyrir töluverða leit ekki rekist á nein slík rök. Það skal tekið fram að þetta frumvarp nær ekki til þeirra laga en það kann að vera skynsamlegt, annaðhvort í framtíðinni eða jafnvel í vinnu þeirrar nefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar, að skoða skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands sérstaklega. Skylduaðild að lífeyrissjóðum er stærra mál og umfangsmeira og ég hef alltaf verið einn þeirra sem hafa hvatt til þess að menn fari af mikilli varúð þegar kemur að lífeyrissjóðunum sem ég lít á sem fjöregg okkar Íslendinga og til fyrirmyndar í flestu.

Frú forseti. Ég vonast auðvitað til þess að þingheimur sé tilbúinn til að slást í lið með okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins til að tryggja íslensku launafólki sömu réttindi og launafólk nýtur í öðrum löndum. Svo einfalt er þetta. Þetta er ekki róttækara en það að tryggja íslensku launafólki sömu réttindi og launafólki hefur í öðrum löndum sem við berum okkur svo gjarnan saman við.

Að lokinni þessari umræðu, frú forseti, óska ég eftir að frumvarpið gangi til hv. velferðarnefndar.