154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég var búinn að lofa því að lengja ekki þessa umræðu en ætla aðeins að segja örfá orð. Ég ætla að byrja á því að þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið hér til máls. Það kemur mér ekkert á óvart að við erum ekki alveg samferða í málinu, þó það nú væri, og gerir það málið bara skemmtilegra í mínum huga. Mér finnst málefnaleg umræða hér hafa verið einkennandi þó að ég taki ekki undir þau mótrök sem hafa verið sett fram.

Hér komu til tals þær breytingar sem voru gerðar á 74. gr. stjórnarskrárinnar sem tóku gildi 1995. Það er rétt sem bent var á, að Alþýðusamband Íslands taldi að ákvæðinu væri beint gegn starfsemi stéttarfélaga í landinu. Til að koma til móts við það virðist stjórnarskrárnefnd hafa litið til athugasemda við gerð álits nefndarinnar við frumvarpið, en þar kemur fram að nefndin líti svo á að með frumvarpinu sé í engu verið að hrófla við núverandi réttarstöðu á vinnumarkaði að því er varðar forgangsréttarákvæði, greiðslu félagsgjalda eða önnur réttindaákvæði. Það var alveg kórrétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar hér áðan.

En þrátt fyrir framangreind ummæli í nefndaráliti stjórnarskrárnefndar, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, verður við túlkun á 74. gr. stjórnarskrárinnar að líta til túlkunar Mannréttindadómstóls Evrópu á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, enda hefur sáttmálinn verið lögfestur með lögum á Íslandi. Jafnvel þótt þau lög njóti ekki stöðu stjórnskipunarlaga ber að túlka stjórnarskrána með hliðsjón af þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland á aðild að, svo lengi sem þeir eru ekki ósamrýmanlegir ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er óhætt að fullyrða að 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er í fullu samræmi við 74. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar menn horfa til þess þá verður ekki hjá því komist að halda því fram að Ísland verði, eða við hér, að gera þær breytingar sem lagt er til í frumvarpinu og tryggja raunverulegt félagafrelsi, m.a. með því að banna forgangsréttarákvæði í kjarasamningum.

Að öðru leyti, ólíkt vinkonu minni hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, vonast ég auðvitað til þess að hv. velferðarnefnd taki til við efnislega umfjöllun um málið og afgreiði það. Ef meiri hluti nefndarinnar leggur til að málið skuli fellt eiga menn að hafa burði til þess að afgreiða málið þannig út úr nefndinni. Ég mun hins vegar ekki hætta að berjast fyrir raunverulegu félagafrelsi fyrir íslenskt launafólk þó að mér takist það ekki í þetta skipti. Það hefur verið þannig, og það er reynsla okkar Sjálfstæðismanna, að oft hefur það tekið langan tíma og margar tilraunir að hola steininn og hrinda frelsismálum hér í gegn en á endanum höfum við yfirleitt haft árangur. Þannig njótum við t.d. meira fjölmiðlafrelsis hér á Íslandi og erum ekki undir einokun Ríkisútvarpsins, þótt margir hér í þingsal vildu að sá tími væri enn.