154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[11:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst bara til að nefna það þá reiknast sala eigna ekki sem tekjur og hún fyllir því ekki rekstrartap. Þannig að við erum ekki að losa okkur undan eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum til að fylla það. Hv. þingmaður veltir því upp hvort það sé ekki erfitt að selja fjármálafyrirtæki við þessar kringumstæður. Ég segi bara: Eigum við ekki bara að sjá til hvort það er svo erfitt eða hvort það myndi ganga upp til hagsbóta fyrir almenning í landinu?

Traust er mjög flókið fyrirbæri og það er hægt að vinna sér inn traust og það er hægt að tapa trausti, það er hægt að sá fræjum sem auka á vantraust og það er hægt að leita leiða til að auka það. Það sem ég get bara sagt er að ég veit að það mun þurfa mikla vinnu þar til fólk finnur fyrir því að það geti treyst því að við séum að losa ríkið undan eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum vegna þess að það er það sem er skynsamlegt að gera, (Forseti hringir.) auðvitað á þeirri forsendu að það sé rétt gert og að fjármunirnir séu nýttir í þágu almennings í landinu, sem ég er þeirrar skoðanir að sé ekki með því að eiga banka. (Forseti hringir.) Og ég er ekki ein um þá skoðun heldur er það yfirlýst markmið að það sé það sem við ætlum að klára.