154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

almannatryggingar.

108. mál
[11:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að biðla til þingflokksformanns Flokks fólksins, og formanns Flokks fólksins líka, að hætta þeirri tilætlunarsemi að fólk eigi alltaf að vera meðflutningsmenn á málum Flokks fólksins, og að hætta því að gera öðrum upp þá skoðun að það sé yfirlýsing um að fólk sé ekki sammála málunum ef það er ekki með á málum Flokks fólksins. Þetta er orðið mjög þreytandi og hefur gerst mjög oft undanfarið. Það væri kurteisi að hætta þessu. Það segir ekkert til um það hvort fólk er sammála málum hvort það er meðflutningsmenn eða ekki. Það kemur fram í atkvæðagreiðslu þegar greidd eru atkvæði um málið. Ég myndi biðla til þingflokksformanns Flokks fólksins að koma þessu til skila. Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að ég er ekki með á þessu máli og ætla að fara yfir þær í ræðu á eftir. Þannig að bara — takk, vinsamlegast.