154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

almannatryggingar.

108. mál
[11:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég styð góð málefni líka hvar sem ég get. En ég tel mig ráða því hvernig ég geri það, hvort ég geri það sem meðflutningsmaður, sem mér finnst vera stórt skref, eða hvort ég styð það í ræðu eða í atkvæðagreiðslu. Ef hv. þingmanni finnst það skrýtið að enginn annar skuli vera með á þessu máli þá er alveg fullt af málefnalegum ástæðum fyrir því. Það er ekkert rosalega erfitt að ímynda sér einhverjar, hversu réttar sem þær eru, t.d. bara það að hér hrúguðust inn, ég veit ekki hversu margar meðflutningsbeiðnir í upphafi þings þegar allir eru mjög uppteknir við að sinna sínum eigin málum og koma fram með þau og tíminn til að fara yfir hundrað meðflutningsbeiðnir frá einum öðrum flokki er bara ekki til staðar í sólarhringnum. Það er ein ástæða fyrir því að fólk er ekki meðflutningsmenn á málum Flokks fólksins, það er ein einföld útskýring. Jú, jú, það er hægt að gera einhverjar kröfur um að fólk sinni starfi sínu einhvern veginn betur eða eitthvað svoleiðis og finni sér tíma til þess, en í alvörunni, Flokkur fólksins er með einhver tíu mál hérna sem eru bara um breytingar á lögum um almannatryggingar, bara þeim lögum. Ég velti fyrir mér hvort þau gætu ekki verið eitt mál. Myndi það ekki spara eitthvað, bara í tíma þingsins í vinnslu við að vinna eitt mál um breytingar á lögum um almannatryggingar í staðinn fyrir tíu mismunandi mál sem koma tíu sinnum hingað inn, fara tíu sinnum í umsagnarferli o.s.frv.? Það er ákveðin skilvirkni að gera það. Eða er þetta bara gert til að segja: Við lögðum fram ógeðslega mörg mál? Maður fær þá tilfinningu alla vega þegar það er verið að auglýsa það hversu duglegur Flokkur fólksins er, sem ég tek alveg hjartanlega undir. Mér finnst alveg frábært hvað Flokks fólksins er duglegur (Gripið fram í.) en fólk vinnur á mismunandi hátt. Já, þetta er flókið kerfi og hv. þingmaður vill taka kerfið í heild sinni og strauja það út og gera nýtt. (Forseti hringir.) En samt eru þessar mörgu pínulitlar breytingar. Það eru plástrar sem þarf kannski að huga að akkúrat eins og staðan er núna (Forseti hringir.) meðan það er ekki hægt að skipta út öllu kerfinu, en það væri, held ég, hjálplegt að koma þessu inn í eitt mál til að ná ákveðnu samhengi.