154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í þingsköpum Alþingis segir um meðferð þingmála að þegar máli hefur verið vísað til nefndar taki hún ákvörðun um málsmeðferð og feli jafnframt einum nefndarmanni að vera framsögumaður málsins. Er formanni m.a. skylt að taka mál á dagskrá fundar samkvæmt ósk framsögumanns.

Það eru 63 þingmenn á þessu þingi, þeir eiga allir rétt á því að leggja fram þingmál og öll þingmál sem lögð eru fram á Alþingi eiga að fá þinglega meðferð; að fyrir þeim sé mælt, þau tekin fyrir í nefnd, kallað sé eftir umsögnum hagsmunaaðila og sérfræðinga og að mál séu afgreidd úr nefnd með nefndaráliti þannig að greiða megi um þau atkvæði hér í þingsal. Þannig vinnur meiri hlutinn hér á þingi hins vegar ekki. Hann vinnur í þágu ríkisstjórnarinnar, sama hvað, og verst jafnvel því að þurfa að taka afstöðu til nokkurra mála sem ekki koma frá henni.

Það er óvirðing við starfsfólk Alþingis, umsagnaraðila, þingið sjálft og lýðræðið að framlögð mál fái ekki þinglega meðferð. Þingmannamál sem mælt hefur verið fyrir daga nær undantekningarlaust uppi í nefnd, fáist þau á annað borð flutt, og nær engin ná aftur í þingsal.

Þessi vinnubrögð hafa sannarlega tíðkast hér um árabil í krafti alræðis meiri hlutans hér á þingi. Frá því að þessi ríkisstjórn endurnýjaði samband sitt á óljósum forsendum hefur minni hluta þings, og í raun þingmönnum öllum, hins vegar verið sýnd æ meiri óvirðing, enda virðist þetta samstarf ekki snúast um neitt annað en að hafa vald og sýna það. Meiri hluti þingmanna Alþingis lætur þetta yfir sig ganga. Er það Alþingi sem ræður sinni vinnu eða er það ríkisstjórnin? Ef meiri hlutinn hér á þingi ætlar þegjandi og hljóðalaust að standa með öllu því sem ríkisstjórnin leggur til, til hvers erum við þá með þjóðkjörið þing? Væri þá ekki réttara einfaldlega að kjósa þessa 12 manna ríkisstjórn og leyfa okkur hinum að fara heim?

Til að bíta höfuðið af skömminni í þessum vinnubrögðum, að neita að taka til umfjöllunar nema sérvalin mál sem lögð eru fram af hálfu þingmanna, þá kemur ekkert frá ríkisstjórninni til þingsins. (Forseti hringir.) Hvort það er vegna þess að engin mál koma frá ríkisstjórninni til þingflokkanna sem hana styðja eða hvort málin stoppa þar (Forseti hringir.) vegna ósættis veit ég ekki. Sennilega sitt lítið af hvoru.

Forseti. Á Íslandi ríkir viðvarandi stjórnarkreppa og ekki einu sinni þá fáum við að ræða þau mál sem skipta okkur þingmenn máli. Ætlum við að sitja undir þessu endalaust, kæru þingmenn?