154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[16:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef við erum sammála um að það séu ákveðnir þættir sem geta haft áhrif á verðbólgu — framleiðsluvandræði, eins og við sáum í Covid og eru nú liðin; eftirspurn, sem við sjáum að dregur nú úr; og síðan það að laun fylgi verðmætasköpun en ekki langt umfram það — þá myndi ég ætla að það hvort laun hækki langt umfram það sem er til skiptanna muni hafa áhrif á það hvort verðbólga fari niður eða ekki. Hins vegar er það alveg rétt að fjárlög, útgjöld okkar og fjárreiður ríkisins hafa sömuleiðis áhrif á verðbólguna. Ég vil ekki standa hér og segja að við horfum á það hvað aðrir geri í því og vonumst til þess að þeim gangi vel svo að verðbólga lækki. Við höfum líka hlutverki að gegna. Við berum okkar ábyrgð í því og aðrir bera sína. Það gengur ekki að þegar það er nefnt bendi sá sem er til svara á næsta mann sem beri ábyrgðina. Við berum öll ábyrgð saman. Ég mun ekki halda því fram að ég beri ekki ábyrgð, að ríkisstjórnin geri það ekki og að fjárveitingavaldið geri það ekki. Ég vona einlæglega — og ég meina það þegar ég segi það — að okkur takist að skila af okkur fjárlögum sem eru nægilega trúverðug svo að við getum með sanni sagt að við séum að gera það sem er ábyrgt og skynsamlegt í þeirri stöðu sem við erum í núna og skilum ekki af okkur fjárlögum sem styðja ekki við verðbólgumarkmið og aðgerðir Seðlabankans. Ég vona að þá getum við bent á aðila vinnumarkaðarins og sagt: Komið með vegna þess að það er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra, alveg sama hvar við stöndum í íslensku samfélagi. Það er þannig að þau sem eru viðkvæmasti hópurinn geta síst ráðið við það. Við finnum öll fyrir því. Fjárlög og fjármálaáætlun eru mikilvægt púsl í þeirri mynd. Ég mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð. Ég átta mig á þeirri ábyrgð og tek hana alvarlega. Ég finn líka fyrir því að það eru mörg mikilvæg verkefni sem kallað er eftir að þurfi meira fjármagn. (Forseti hringir.) Ef þau eru þeim mun mikilvægari verðum við að horfa til annarra útgjalda eða annarra aðgerða sem geta jafnað þá mynd.