154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

velferð dýra.

12. mál
[17:14]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að taka til máls undir þessum lið. Ég vil reyndar byrja á að lýsa því yfir að ef ég vildi síst munnhöggvast við einhverja þá væri það við þessa ágætu vini mína í Flokki fólksins. Við erum ekki sammála í þessu máli en erum trúlega sammála í flestum öðrum málum. Það er vík milli vina í smástund og við látum það yfir okkur ganga.

Það sem hræðir mig mest, virðulegur forseti, í þessari umræðu sem hér hefur farið fram er þessi þungi fullyrðinga og ásakana um dýraníð. Mér finnst það ekki sæmandi að tala svona hér í þingsal um íslenska bændur, að tala svona um fólk sem hefur sinnt þessu dýrahaldi í yfir 40 ár með miklum sóma. Ég þekki marga bændur og þeirra fólk og veit ekki um nokkurn mann, alla vega sem ég þekki, sem er vísvitandi að fara illa með blóðmerar. Ég hef upplýsingar um það að það séu minni afföll hjá blóðmerum en öðru afurðagefandi búfé í landinu. Það er einhver regla um það hvað talið er eðlilegt að afföll séu í bústofninum. Ég þekki það ekki, en ég hringdi til að fá upplýsingar um hvernig það væri almennt í bústofni. Það liggur fyrir og kom líka fram í atvinnuveganefnd um daginn að blóðmerahald hefur í 40 ár trúlega verið sú búgrein með hross sem fer hvað best með skepnuna. Ég ætla ekki að endurtaka hvað er tekið mikið blóð og hvað oft. (Gripið fram í.) En það vitum við og komið hefur fram í þessari umræðu að það er ekki gengið lengra í blóðtöku en leyft er. Fylgst er með því. Fyrir blóðtökuna er deyft þannig að hún sjálf á ekki að vera sársaukafull. Við sem höfum stundað atvinnulífið, hvort sem er í sveit eða úti á sjó, vitum það að atvik gerast. Þau gerast alls staðar í atvinnulífinu og jafnvel á Alþingi. Menn eru bara þannig á Alþingi að þeir og við erum bara mannleg. Auðvitað er alltaf óheppilegt þegar það gerist en þannig er nú lífið. Ég er ekki að gera lítið úr því en mér finnst þær ásakanir hérna, að segja að dýr liggi og blæði út eins og hvert annað rusl — er okkur sæmandi að segja þetta? Er sæmandi að segja það um fólk sem stendur þannig að búskap sínum? Ég segi nei.

Ég vil biðja íslenska bændur afsökunar á því að þessi orð skuli hafa fallið í þingsal. Ég bið þá afsökunar á því og mér finnast þetta ekki góðar kveðjur til ungra bænda, sem margir hverjir stunda einmitt blóðmerarækt, að nú þegar þeir eru að berjast fyrir lífi sínu og fyrir lífi sveitanna séu þeir kallaðir dýraníðingar og sagt að þeir labbi fram hjá deyjandi skepnu eins og hún komi þeim ekki við. Það særir mig. Það særir hvern einasta mann að svoleiðis sé talað og þannig eigum við ekki að tala. Við myndum ekki einu sinni tala svona hvert við annað hér, hvað þá um bændur sem eiga allt gott skilið og þurfa á öllu frekar að halda núna en svona sendingum.

Mér finnst í þessu máli eins og í of mörgum í þinginu að við séum í einhverju stríði við atvinnulífið. Þetta er bara árás á atvinnulífið. Þetta er búgrein sem er búin að vera innan Bændasamtakanna í 40 ár og er sérstök deild, og það á að fara að breyta því í það að vinna í vísindaskyni? Ætlum við að fara að stoppa fiskveiðar og fara að vinna þær í vísindaskyni? Við þyrftum þá ekki annað en að senda einhverja tvær trillur á sjó til að vita hvernig þorskurinn hefur það í sjónum. Er bara hægt að gera það eftir aldabúskap, í þessu tilfelli 40 ára búskap með blóðmerar, að segja að nú þurfi að fara að rannsaka þetta? Þeir vita allt um þetta og það þarf ekkert að rannsaka neitt, en það þarf að standa vel að öllu og við skulum halda áfram að tala fyrir því að bændur standi sig í stykkinu. Ég hef ekki áhyggjur af íslenskum bændum, að þeir standi sig ekki í stykkinu. Ég hef meiri áhyggjur af því að við hérna í þinginu stöndum okkur ekki í stykkinu og stöndum með þeim núna þegar allt er að fara til andskotans hjá þeim í búrekstrinum, og ekki allt þeim að kenna og örugglega fæst af því. Þeir stjórna ekki verðbólgunni í heiminum eða hækkunum á aðföngum, hvað þá hækkunum á vöxtum sem eru að drepa allt, ekki bara þá heldur okkur öll; börnin okkar sem eru að kaupa hús.

Ég held að við ættum að senda hlýjar kveðjur í sveitina og ekki ásaka fólk þar um dýraníð. Það er alvarlegt að ásaka fólk um dýraníð. Ég veit ekki hvað fylgir þeirri sekt eða því broti að fólk sé sakað um dýraníð. (IngS: Ill meðferð á dýrum.) Það kom fram í atvinnuveganefnd þegar yfirdýralæknir kom að ekkert benti til þess að meðferð á blóðmerum bryti í bága við dýraverndarlög. Það er ekkert sem hefur komið fram um það að bændur hafi brotið dýraverndarlög gagnvart blóðmerum. En það er hægt að hlusta þegar útlendingar koma hingað og standa í þrjú ár og taka myndir af atvikum og klippa saman á ljótan hátt. Þá líta menn ekki vel út. Og hvað gerðu þeir þegar MAST óskaði eftir því að fá óklippt efni? Þá kom ekkert. Þeir vildu ekki senda sannleikann. Það má ekki segja sannleikann. Það á að halda lyginni á lofti. Það er óþverraskapur, alger óþverraskapur. Hvernig haldið þið að það væri ef ljósmyndari stæði á þingpöllunum í þrjú ár og tæki myndir af þingmönnum? Ég hugsa að það væri hægt að birta mynd af hverjum einasta þingmanni í einhverri stellingu sem væri óheppileg. Svo væri hægt að segja: Já, þetta er nú þingheimur. Svona lítur hann út.

Þetta er auðvitað bara óþolandi umræða. Fólk getur auðvitað haft allar skoðanir á blóðmerahaldi, ég skil það alveg. Þannig erum við bara gerð. En ásakanir í garð einstaklinga, í garð heillar stéttar blóðmerabænda, eru ódrengilegar.

Fjölmiðlarnir hafa tekið þátt í þessu líka. Þeir senda dróna inn í fjárhúsin þar sem er verið að taka blóð, þar sem fjölskyldan á bænum stendur við merarnar og tekur blóð með dýralækninum sem er búinn að deyfa þær. Þá koma svífandi drónar frá fréttastofu Ríkisútvarpsins inn um gluggann sem enginn hafði boðið í heimsókn og þeir brjóta öll lög. Hvar eru fréttirnar af því í Ríkisútvarpinu eða ríkissjónvarpinu? Þeir segja ekki fréttir af sér og sínum, hvorki þegar þeir brjóta lög gagnvart persónufrelsi eða öðru frelsi, eða sameiginlegum tekjum okkar landsmanna. Ég held að þeir ættu nú að hætta að leika sér í drónaleik, snúa sér að því að segja sannar fréttir og láta fólk í atvinnulífinu í friði sem er að vinna sína vinnu og vill fá frið. Það er lágmark að banka upp á, vegna þess að í sveitinni er vel tekið á móti öllum. Ég er alveg sannfærður um það að þeir sem urðu fyrir þessu hefðu boðið fólkinu í kaffi og leyft því að koma og vera viðstatt ef fólk hefði bara sýnt almenna kurteisi, sem vantar upp á. Hana vantar líka upp á í þeim orðum sem hér hafa fallið í dag gagnvart bændum. (IngS: Ég á það til.) Ég bið þá afsökunar á því fyrir hönd þingsins að þetta skuli vera sagt á þeim tíma sem við þurfum að senda hlýjar kveðjur í sveitina, baráttukveðjur, og þyrftum kannski að horfa í eigin barm og hvernig við getum betur staðið með bændum í þeirra erfiðleikum í dag.