154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:38]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég hygg að það sé almenn samstaða um það í samfélaginu að þær kynslóðir sem hafa byggt upp þetta land eigi það skilið að vel sé búið að þeim þegar starfsævinni lýkur. Eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur en nöturleg er hins vegar staða þeirra verst settu. Til að mynda kemur fram í nýlegri skýrslu sem við ræddum í þinginu að fólk á eftirlaunaaldri sé ekki í hærra hlutfalli en aðrir hópar þegar kemur að fátækt. En munurinn er kannski sá að fátækt þeirra sem þó eru undir lágtekjumörkunum er almennt mjög djúp og mikil. Með öðrum orðum: Neyð þessa hóps er mikil og óásættanleg.

Viðreisn hefur frá upphafi lagt áherslu á að lífeyriskerfið sé sveigjanlegt og taki mið af þörfum ólíkra hópa. Í okkar ágæta velferðarsamfélagi höfum við allar forsendur til að gera betur. Í stefnu Viðreisnar segir, með leyfi forseta:

„Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Lífeyriskerfi almannatrygginga skal einfaldað og dregið úr vægi skerðinga.“

Hluti vandans hér, eins og fleiri hafa komið inn á, er flókið kerfi þar sem fólk er flækt í skerðingarnet. Við höfum talað fyrir því að jafna skattheimtu og frítekjumark fyrir allar tekjur óháð uppruna þeirra og rökin fyrir sama frítekjumarki eru m.a. að lífeyrisgreiðslur eru í raun frestaðar atvinnutekjur vegna þess sem við höfum sjálf greitt í sjóðina í gegnum ævina.

Svo má auðvitað ekki gleyma því að þeir sem lökust hafa kjörin í hópi eldri borgara, rétt eins og á við um aðra, verða verst úti fjárhagslega í þeirri háu verðbólgu sem geisar hér reglulega og ofurvaxtastiginu sem henni fylgir. Síhækkandi verð á brýnum nauðsynjum, mat, lyfjum og öðrum nauðþurftum sviptir fjölmarga aldraða möguleikanum á því að lifa innihaldsríkara lífi. Það skiptir ekki bara miklu máli hvað fólk fær mikinn aur í vasann, það skiptir ekki síður máli hvað fæst fyrir peninginn. Því miður er það þannig að ríkisstjórnarflokkarnir, og reyndar allur gamli fjórflokkurinn, sjá ekki lengur að eitt stærsta lífskjaramál allra Íslendinga á öllum aldri er stöðugri gjaldmiðill sem myndi hafa í för með sér lægri verðbólgu og lægri vexti. Eldri borgarar njóta þess ekki síður en aðrir.