154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

utanríkisstefna stjórnvalda.

[15:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja að ég var að langmestu leyti ánægður með þessa ræðu hér sem lagði áherslu á það að við Íslendingar ættum miklu fleira sem sameinar okkur þegar átök geisa eins og nú gerist bæði í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég held að tíma okkar væri einmitt langbest varið í að þétta raðirnar um þann málflutning, að við leggjum áherslu á það, eins og við höfum gert vegna átakanna í Úkraínu, að halda á lofti þeim gildum sem við teljum að verði að verja og við Íslendingar teljum mikilvægast af öllu.

Í þessu tiltekna máli sem hv. þingmaður spyr hér út í verð ég að segja alveg eins og er að það kemur mér á óvart að þingmönnum skuli finnast það einkennilegt að við Íslendingar skipum okkur í hóp með meiri hluta Evrópusambandsríkja og með öllum Norðurlöndunum utan Noregs og geri á því jafn mikinn grundvallarmun eins og lesa má út úr ræðum sem fluttar eru hér og því sem sagt er í fjölmiðlum, vegna þess að sá munur er ekki raunverulega jafn mikil hyldýpisgjá og hér er haldið á lofti. Það hljóta allir að sjá það; allir sem nálgast málið með opnum huga af einhverri sanngirni og setja í samhengi atkvæðagreiðsluna og skýringarnar sem fylgdu. Allir sem vilja raunverulega nálgast þetta mál af einhverri yfirvegun og sanngirni sjá að það er ekki sannfærandi málflutningur sem er haldið á lofti með þessum hætti. Að kalla eftir því á meðan staðan er jafn alvarleg og við horfum upp á fyrir botni Miðjarðarhafs að efna til einhverrar sérstakrar umræðu um það (Forseti hringir.) hvað maður hafi lært af þessum samskiptum, sem að mínu mati voru bara eðlileg og í samræmi við venjur og hefðir, finnst mér heldur dapurlegt. Það verð ég að segja.