154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

fundur aðildarríkja samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum.

375. mál
[16:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, þetta er áhugaverð umræða og ég vil þakka bæði fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir svörin. Ég tek heils hugar undir með ráðherra að við þurfum að nálgast þetta þannig að það sé alveg ljóst hvað Ísland vill. Við erum friðelskandi þjóð. Við eigum að gera allt, og það er brýnt að undirstrika það núna, sem í okkar valdi stendur til að koma á friði og öryggi í heiminum, hvort sem það er fyrir botni Miðjarðarhafs eða annars staðar. En þegar kemur að umræðu um kjarnorkuvopn þá verðum við líka að fylgja þessu raunsæi sem þarf að draga fram í tengslum við alþjóðastjórnmál, öryggi og varnir og muna að við erum líka aðilar að varnarbandalaginu NATO.

Ég vona bara að það sé líka einhugur um þetta mál í ríkisstjórn, og þetta verði ekki enn eitt málið sem við munum upplifa klofning í eða skiptar skoðanir því að í þessu máli er líka mikilvægt að ríkisstjórnin tali einni röddu.