154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

þróunarsamvinna og réttindabarátta hinsegin fólks.

361. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin og hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir að hafa tekið til máls. Áherslur Íslands sem hæstv. ráðherra lýsti hér, áherslur á réttindi hinsegin fólks í allri utanríkisþjónustunni, eru til eftirbreytni enda eru mannréttindi hornsteinn íslensku utanríkisstefnunnar. Ég man eftir samtali sem ég átti í tengslum við vinnu sem við unnum í utanríkisráðuneytinu um mannréttindamiðaða þróunarsamvinnu þar sem tókust á ólík sjónarmið til þessa málaflokks, sérstaklega varðandi það að meginþróunarsamvinna ætti alltaf að snúa að réttinum til lífs, réttinum til að hafa aðgang að hreinu vatni, bólusetningum, að heilsufarsmálefnum og þess háttar. Þá er auðvelt að benda á það að fyrir þá sem tilheyra hinsegin samfélaginu í þessum ríkjum, þar sem staðan er svo slæm, er auðvitað lítils virði, ef þeir hafa ekki grundvallartilverurétt, að fá aðgang að hreinu vatni, bólusetningum og þar fram eftir götunum. Það er nefnilega skylda okkar að halda því til haga alls staðar að mannréttindi eru algild. Þau eiga alltaf við og þau eiga við um alla. Það er jákvætt að við verjum sérstökum fjármunum í þróunarsamvinnu í þennan málaflokk, að styðja við réttindi hinsegin fólks í þróunarríkjum. Mannréttindabrot valda öðrum vandamálum í þróunarríkjum; misskiptingu, fátækt og spillingu. Það er grundvallarforsenda þess að hægt sé til frambúðar að leysa úr vanda þróunarríkjanna.

Að lokum langar mig að hvetja hæstv. ráðherra til að leita frekari leiða til þess að styðja frjáls félagasamtök í þessari vegferð, eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom einmitt inn á áðan.