154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

úthlutun byggðakvóta.

265. mál
[16:32]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Byggðakvóti og úthlutun hans hefur nú löngum verið álitaefni á vettvangi stjórnmálanna og um það mikið rætt. Byggðakvóti er hluti af þessu svokallaða 5,3% kerfi þar sem er tekið til sérstakra ráðstafana, 5,3% af leyfilegum heildarafla og sett inn í ýmis kerfi, en hér er fjallað sérstaklega um byggðakvóta. Þessum kerfum var komið á fót í raun og veru á löngum tíma til að bregðast við margvíslegum hlutum og það sem kallað er á fagmálinu almennur byggðakvóti er þá aflaheimildir sem sannarlega áttu að vera til að styrkja stöðu byggðarlaganna. Þessi hluti kerfisins rekur sögu sína aftur til ársins 1999 og um tilurð þessara kerfa og reynsluna af þeim er fjallað ágætlega í skýrslu Auðlindarinnar okkar þar sem ég vísa sérstaklega til þess sem leiðar til að fara kannski aðeins dýpra í málið. Það væri svo auðvitað efni til sjálfstæðrar umræðu hér að ræða það í sjálfu sér þegar við hugsum um það hvort sjávarútvegur einn og sér geti verið burðaraflið eða hreyfiaflið í því að hafa úrslitaáhrif á þróun byggðar í landinu. Það er ekki augljóst í mínum huga að svo geti verið. Það er hins vegar ljóst að framkvæmd byggðakvóta er mjög flókin sem birtist m.a. í því að ýmis álitaefni vegna framkvæmdarinnar hafa sannarlega risið í gegnum tíðina. Þingmaðurinn bendir hér á fjölda kæra sem hafa verið lagðar fram vegna framkvæmdarinnar. Yfirgnæfandi fjöldi kæra var staðfestur, þ.e. ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta var staðfest af ráðuneytinu, en um fimmtungi af þeim kærum sem bárust var vísað frá eða þær felldar niður. Það er því erfitt að draga ályktanir um fyrirkomulag úthlutunar byggðakvóta af kærufjöldanum einum saman, en við höfum fleiri vísbendingar.

Í minni tíð sem ráðherra hef ég varla heyrt þá rödd sem talar um hversu frábært, gagnlegt og skynsamlegt þetta kerfi sé. Þessa rödd hef ég ekki enn þá heyrt á þessum tveimur árum sem ég hef gegnt embættinu. Ég vil því horfa til þess sem lagt er til í niðurstöðum verkefnisins Auðlindarinnar okkar, að breytingar yrðu gerðar á núverandi fyrirkomulagi byggðakvóta, ef við horfum á það sérstaklega, og að kveðið yrði með skýrum hætti á um markmið, umfang og ráðstafanir byggðakerfis í fyrirhuguðu frumvarpi um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar. Mig langar að nefna hér að áform um lagasetningu á samráðsgátt hafa þegar verið kynnt auk þess sem skýrsla Auðlindarinnar var kynnt þar. Í samráðsferlinu komu fram skiptar skoðanir á framkvæmd byggðakvóta, sem kom mér ekki á óvart, en ég hef ekki fundið rökin til að verja núverandi fyrirkomulag. Ég held að það liggi algerlega fyrir að það hafi einfaldlega of marga ókosti þrátt fyrir göfug markmið og ég held að við þurfum að reyna með einhverju móti að horfa til framtíðar og læra af þessum síðustu 25 árum um það hvað hefur gengið og hvað hefur ekki skilað árangri.

Á fyrri þingum hafa verið lögð fram frumvörp sem tengjast byggðakvóta án þess að þau hafi náð fram að ganga, nú síðast á 151. löggjafarþingi. Á vorþinginu síðar í vetur mun ég leggja fram frumvarp til nýrra heildarlaga og þar verða lagðar til breytingar á fyrirkomulagi og framkvæmd byggðakvóta. Nú er verið að ígrunda í ráðuneytinu hvað komi í staðinn fyrir þessi kerfi og þar eru ákveðnar tillögur. Þar er lögð til annars vegar svokölluð innviðaleið, þ.e. að leigja út þessar heimildir og nýta þau verðmæti sem þannig fást til uppbyggingar í sjávarbyggðum. Slík uppbygging þyrfti þá ekki endilega að vera bundin við sjávarútveg heldur gæti verið á öðrum sviðum. Þetta er annar valkosturinn, sem er í raun og veru að heimildirnar séu nýttar með óbeinum hætti til að styðja við byggðirnar. Hinn valkosturinn, sem hefur stundum verið kallaður byggðafestuleið, væri þá sértækar og markvissar aðgerðir til að efla byggðir þar sem veiðar og vinnsla eru talin eiga framtíð fyrir sér, sem eru augljóslega matskenndir þættir.

Svo ég haldi því til haga hér hafa hagsmunaaðilar, eins og við er að búast, mjög mismunandi skoðanir á þessu. Til að mynda telur SFS að réttast væri bara að minnka þessi 5,3% og minnka öll félagslegu kerfin. Meðan LS telur að allar breytingar eigi að fara til LS þá tel ég að sjómannasamböndin hafi skoðanir á þessum hlutum jafnframt, eins og allir sem koma nálægt þessum málum. Sjálf hallast ég í raun að fyrri leiðinni, þ.e. þessari innviðaleið, en það er mikilvægt að þetta sé rétt útfært (Forseti hringir.) til að markmiðin náist og að því er unnið í ráðuneytinu en auðvitað er jafnframt heilmikil vinna eftir af hendi þingsins.