154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

bann við olíuleit.

374. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég verð að nýta tækifærið og stelast aðeins út fyrir efni fyrirspurnarinnar enda nýtti ráðherra nú tíma sinn aðallega í að ræða aðra hluti. Ráðherrann hefur kannski ekki alveg fylgst með umræðunni í kringum rammaáætlun af því að við sem ekki studdum þá niðurstöðu sem varð í pólitískum hrossakaupum milli stjórnarflokkanna gerðum það af málefnalegum ástæðum. Við gerðum það t.d. vegna þess að Hvammsvirkjun var haldið í nýtingarflokki en ekki færð í bið eins og hinar tvær virkjanirnar í neðri Þjórsá. Þær hefðu auðvitað allar þrjár átt að fylgjast að, bæði vegna þess að öðruvísi er ekki hægt að meta þær samhliða með eðlilegum hætti en líka vegna þess að öll rökin fyrir tilfærslunni á hinum tveimur áttu við um Hvammsvirkjun. Við vorum á móti því að Kjalölduveita færi úr vernd í bið vegna þess að fyrir því voru engin rök önnur en að Landsvirkjun hefur frá örófi alda dreymt um að rústa Þjórsárverum og fékk stuðning stjórnarþingmanna til þess. Við vorum á móti því að jökulsárnar í Skagafirði færu úr vernd í bið vegna þess að þær voru einfaldlega fullrannsakaðar, þær á að vernda.

Það stoðar lítið að tala hér um orkuskipti sem réttlætingu fyrir virkjunardraumum hæstv. ráðherra þegar það er ekkert í regluverkinu sem tryggir að eitt einasta megavatt nýtist í að losa okkur við einhvern dropa af olíu úr kerfinu okkar. Þetta fer bara allt á einhvern markað sem getur bara nýtt þetta í hvað sem er.

Svo verð ég að leiðrétta hæstv. ráðherra með það að ríkisstjórnin hafi háleit markmið vegna þess að þau eru ekkert svo háleit, 55% samdráttamarkmiðið er bara svona í meðallagi og ríkisstjórnin er fjarri því að ná því.. Hún rétt slefar upp í 29% markmiðið sem var samið um við ESB á sínum tíma. (Forseti hringir.) Og 29% er talsvert lægra en 55% sem ríkisstjórnin segist ætla að ná.

En ég heyrði ekki svar við 3. lið fyrirspurnarinnar. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að koma inn á það hér í sínu seinna svari: Til hvaða aðgerða (Forseti hringir.) hyggst ríkisstjórnin grípa eða hvað hefur hún gert (Forseti hringir.) til að fylgja eftir þessum lið í stjórnarsáttmálanum um að ekki verði gefin út leyfi? Við erum bara að tala um hvað ráðherrann hefur sagt stofnunum sem sjá um þetta, (Forseti hringir.) af því að stjórnarsáttmálar stýra ekki ríkinu. Það eru reglugerðir, það eru lög, það eru umburðarbréf,(Forseti hringir.) og alls konar dót sem ráðherrann hefur í höndum sér.

(Forseti (LínS): Forseti vill minna ræðumenn á að virða ræðutíma.)