154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

endurgreiðslukerfi vegna viðgerða á rafmagnstækjum.

391. mál
[17:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa fyrirspurn sem snertir á máli sem við ættum að vera að ræða miklu meira, hvernig við getum ekki bara lengt líftíma hluta og þannig létt álagi af umhverfinu heldur líka unnið þannig ýmis jákvæð jaðaráhrif. Þetta hefur t.d. bein áhrif á ráðstöfunartekjur einhvers hluta fólks, sem nýtir sér viðgerðarþjónustu, og eykur líka nýsköpun. Þetta eru væntanlega oft smáfyrirtæki sem eru að sinna viðgerðum sem geta þá vaxið með aukinni eftirspurn þannig að þetta er það sem menn myndu kalla „win-win-win“ hugmynd. Mig langar að vekja athygli á því, vegna þess að hæstv. ráðherra talaði um framlengda framleiðendaábyrgð í þessu samhengi, að við þurfum að skoða þetta aðeins út fyrir þann kassa. Ég held að við þurfum að skoða betur beinar endurgreiðslur í vasann á fólki frekar en einhvers staðar til þjónustuveitandans því að það skilar sér ekki alltaf í lægra verði. Mig langar í því samhengi að nefna hér drög að frumvarpi sem voru send til meðflutnings fyrir helgi, að ég held, (Forseti hringir.) varðandi hringrásarstyrki sem snúast einmitt um þetta og ná ekki bara til raftækja heldur líka til annarra lausamuna; fatnaður, skór, húsgögn, (Forseti hringir.) alls konar hlutir sem fólk getur látið gera við og þar með gert umhverfinu gott en jafnframt stutt við nýsköpun í nærumhverfinu og grætt smá aur sjálft.